Pílustaður missir marks hjá eigendum glæsiíbúða

20.11.2022 - 14:17
Píluborð með pílum.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Eigendur íbúða við Kolagötu 1 og 3 hafa kært til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að veita pílustaðnum Skor 12 ára starfsleyfi. Á miklu hefur gengið í samskiptum íbúanna við heilbrigðiseftirlitið; þeir hafa kvartað undan steikarbrælu, kareoke-söng, ónæði frá gestum og hávaða. Heilbrigðiseftirlitið segist hafa gengið langt í að verja hagsmuni íbúanna. Kvartanir voru farnar að berast frá íbúunum áður en staðurinn tók til starfa.

Kæra íbúanna og greinargerð heilbrigðiseftirlitsins voru kynntar á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í síðustu viku. 

Kæra íbúanna er dagsett 9. september.

Í henni kemur fram að íbúðirnar séu í glæsilegu fjölbýlishúsi við Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur. Þær hafi frá upphafi verið markaðssettar sem glæsiíbúðir og verðlagðar sem slíkar. Eigendum hafi verið seld sú hugmynd að á jarðhæð fasteignanna yrði að finna verslanir með þekktum alþjóðlegum merkjavörum og allt umhverfið yrði bæði snyrtilegt og glæsilegt.

Það hafi því komið þeim í opna skjöldu þegar leyfi fékkst hjá borginni til að innrétta veitingahús á jarðhæðinni og opna þar skemmtistað sem enginn þeirra hafði gert ráð fyrir.

Í kærunni sést að íbúarnir hafa gert margvíslegar athugasemdir við reksturinn. Þeir segja að honum fylgi hávær tónlist, óþrifnaður og ólykt og það liggi í augum uppi að fylgifiskur kareoke-herbergis sé hávær söngur og tónlist sem berist upp í íbúðirnar. Til að bæta gráu ofan á svart berist upp til þeirra matar- og steikingarlykt.

Íbúarnir benda jafnframt á þær kvaðir sem hvíli á eigendum jarðhæðarinnar. Þar hafi átt að vera verslanir sem seldu háklassa vörumerki en með því að halda úti rekstri skemmtistaðar sé augljóslega verið að brjóta gegn þessum ákvæðum. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar rekur í greinargerð afskipti sín af skemmtistaðnum og samskipti sín við íbúana.  Ljóst er að eftirlitið hefur haft í mörg horn að líta. 

Í greinargerðinni kemur meðal annars fram að eftirlitinu hafi borist kvartanir frá íbúum áður en staðurinn opnaði vegna „fyrirhugaðs hávaða“.  Ekki hafi verið hægt að rannsaka þær kvartanir eða svara þeim efnislega enda staðurinn ekki starfandi. 

Þá kemur fram í greinargerðinni að frá apríl og fram í júní hafi íbúar í húsinu kvartað alls 37 sinnum undan hávaða frá staðnum. Heilbrigðiseftirlitið hafi brugðist við, gefið staðnum tækifæri til úrbóta og stytt opnunartímann til að koma til móts við kröfur íbúa. 

Eftir að úrbótunum var lokið í byrjun ágúst fór eftirlitið í hljóðmælingar.  Niðurstöður þeirra sýndu að hljóðstig væri innan viðmiðunarmarka og  að söngurinn frá kareoke-herberginu barst ekki á milli hæða. Heilbrigðiseftirlitið bauð íbúum jafnframt upp á hljóðmælingar en þeirri beiðni var hafnað. Í framhaldinu var starfsleyfi gefið út til 12 ára.

Heilbrigðiseftirlitið bendir á að þótt staðurinn hafi fengið starfsleyfi fylgi því þau takmörk að hljóðstyrkur tónlistar skuli miðast við 75 dB.  Það sé mjög lágur hljóðstyrkur á tónlist og því íþyngjandi fyrir rekstraraðila.

Þá telur eftirlitið það langt seilst hjá íbúunum að halda því fram að horft hafi verið framhjá hagsmunum þeirra. Þvert á móti hafi verið gengið langt til að verja hagsmuni þeirra. 

Eftirlitið telur jafnframt ólíklegt að enginn þeirra hafi orðið varir við þegar staðurinn opnaði að nýju þann 5. ágúst. Og að þeir hafi verið grandlausir um það í fjóra daga eða þar til fyrirspurn barst frá lögmanni þeirra.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV