Vonast eftir bættum fjarskiptum eftir áramót

19.11.2022 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Forstjóri Fjarskiptastofu bindur vonir við að áætlun um bætt fjarskipti á landsbyggðinni verði lögð fram á fyrri hluta næsta árs. Allir íbúar Skagastrandar urðu net- og farsímasambandslausir í sex klukkustundir fyrr í mánuðinum og hefur sveitarstjórnin kallað eftir umbótum.

Þegar Skagstrendingar misstu allt samband við umheiminn á dögunum gerði sveitarstjórn alvarlegar athugasemdir við öryggi íbúanna. Þá var hvorki net- eða farsímasamband og engin leið var að ná samband við neyðarlínuna. Þá hafði ljósleiðari farið í sundur við vegagerð og vegna erfiðra aðstæðna á staðnum tók langan tíma að koma honum í lag aftur.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu, segir að þessi staða geti komið upp á fáeinum stöðum á landinu, en almennt sé fjarskiptaöryggi hér á landi með því besta sem þekkist í heiminum. „Já við erum meðvituð um það að ástandið á Skagaströnd og á nokkrum öðrum stöðum úti á landi er ekki eins gott og við vildum hafa það og við viljum koma því í farveg að bæta úr því með að setja fram samráðsskjal á fyrri hluta næsta árs um þessa stöðu almennt og rauninni að fá fram samtal í samfélaginu um það með hvaða hætti eigi að bregðast við þessu. Hvort að markaðsaðilar vilji bæta úr þessu eða hvort að ríkisvaldið verði að stíga þarna inn í. Stendur til að breyta einhverju núna í kjölfarið á því að þetta gerist? Ég skal ekki útiloka það en ég hef ekki fengið upplýsingar um það,“ segir Hrafnkell.