Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skrifstofur Twitter verða lokaðar fram yfir helgi

18.11.2022 - 05:30
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Skrifstofum samfélagsmiðilsins Twitter var lokað fyrirvaralaust í dag. Starfsfólk fékk skilaboð um að opnað yrði að nýju á mánudaginn kemur.

Ástæða lokunarinnar var ekki látin uppi en fréttir hafa borist af því að fjöldi starfsfólks hafi hætt hjá Twitter. Það gerðist eftir að Elon Musk, nýr eigandi miðilsins, krafði það um langa vinnudaga undir miklu álagi ella gæti það hætt. Þeim sem hættu yrði greiddur þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Talið er líklegt að ástæðan fyrir því að skrifstofunum var lokað sé sú að fjöldinn allur hafi ekki viljað undirgangast skilmála Musks.

Í skilaboðunum var starfsfólk jafnframt beðið að ræða ekki viðkvæm trúnaðarmál fyrirtækisins á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum eða annars staðar. 

Telja að aðeins 2.000 verði eftir í starfsliðinu

Starfsfólk hefur birt færslur á Twitter undir myllumerkinu #LoveWhereYouWorked, til marks um brotthvarf sitt. Bekkurinn var víða orðinn þunnskipaður í fyrirtækinu og í sumum deildum var nánast enginn eftir til að sinna daglegum störfum.

Fyrrverandi starfsmaður, sem æskir nafnleyndar, segist í samtali við BBC telja að senn verði aðeins tvö þúsund eftir af þeim 7.500 sem hjá fyrirtækinu störfuðu þegar Musk keypti það. 

Musk gekk frá kaupum á Twitter í lok síðasta mánaðar eftir langt og strangt samningaþóf og hótanir um málssókn. Kaupverðið var 44 milljarðar bandaríkjadala. 

Hann rak fjóra háttsetta starfsmenn umsvifalaust og skömmu eftir mánaðamót var 3.700 starfsmönnum til viðbótar sagt upp. Það var um helmingur þeirra sem störfuðu hjá Twitter þegar Musk keypti fyrirtækið.