Ruddu leið í gegnum skriðuna á Grenivíkurvegi

18.11.2022 - 18:16
Mynd: Sölvi Andrason / Sölvi Andrason
Stórvirkar vinnuvélar voru í dag notaðar við að ryðja leið í gegnum aurskriðuna sem féll á Grenivíkurveg í gærmorgun. Vegurinn er þó enn lokaður því mikil bleyta er í skriðunni.

Staðan metin í birtingu á morgun

Í nótt verður látið á það reyna hvort aur heldur áfram að skríða yfir veginn. Vegagerðin metur stöðuna í birtingu á morgun og fyrr verður ekki opnað fyrir umferð. Enn er ekki ljóst hve miklar skemmdir hafa orðið. Vegrið er illa farið en óljóst er hvort vegurinn sjálfur hefur orðið fyrir skemmdum.

Mikið hreinsunarstarf framundan

Þó svo ákveðið verði að opna veginn á morgun segir verkstjóri hjá Vegageðrinni að hreinsunarstarf taki talsverðan tíma. Það þurfi að moka aur og grjóti bæði af veginum sjálfum og hreinsa vegbrúnir og framrásir sitt hvoru megin. Og í raun verði ekki hægt að ganga almennilega frá öllu að fullu fyrr en næsta sumar.