Óttast mengun og spillta ásýnd Húsavíkurhafnar

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Húsfyllir var á íbúafundi um fyrirhugaða þaravinnslustöð á Húsavík. Íbúar segjast margir jákvæðir fyrir starfseminni, en óttast mengun og að ásýnd hafnarinnar verði spillt.

Verkefnið kynnt Húsvíkingum á íbúafundi í gær. Bæjarbúar sem við ræddum við sögðust almennt jákvæðir fyrir starfsemi Íslandsþara, sem ætlar sér að vinna stórþara fyrir matvæla- og lyfjaiðnað. En staðsetning þessarar fimm þúsund fermetra verksmiðju við Húsavíkurhöfn, skammt frá ferðaþjónustufyrirtækjum og veitingahúsum, er mörgum hugleikin.

Sveitarstjórnar að láta lóðina af hendi

Stjórnarformaður Íslandsþara segir í höndum sveitarstjórnarinnar að taka ákvörðun um hvort Þaravinnslustöðin rísi á þessum stað við höfnina, eða verði fundinn annar staður. Von er á þeirri ákvörðun á næstu vikum.

Hann segist telja að fyrirtækinu hafi tekist að lægja öldurnar á íbúafundinum, en það vilji alls ekki hefja starfsemina í óþökk Húsvíkinga.

„Við fórum mjög vandlega yfir það. Það er engin lykt, það er engin þurrkun sem á sér stað þarna og það er enginn hávaði. Þetta er það sem við köllum léttur iðnaður“, segir Magni Þór Geirsson.