Oddviti L-listans á Akureyri hættir sem bæjarfulltrúi

Mynd með færslu
 Mynd: L-listinn
Gunnar Líndal, oddviti L-listans í bæjarstjórn á Akureyri, hefur sagt af sér sem bæjarfulltrúi. Ástæðuna segir hann breyttar forsendur og miklar annir í öðrum störfum.

Gunnar er forstöðumaður rekstrar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og mun þar leiða byggingu nýrrar legudeildarálmu. Hann segir, í tilkynningu frá L-listanum, að það fari ekki saman að vera oddviti í bæjarstjórn og sinna svo veigamiklu verkefni um leið.

Elma Eysteinsdóttir sem skipaði annað sæti listans verður nú oddviti L-listans. Halla Björk Reynisdóttir, sem skipaði þriðja sætið, færist nú upp í annað sæti og Andri Teitsson verður aðalmaður í bæjarstjórn, færist úr fjórða sæti upp í það þriðja.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV