Ummerki um pyntingar Rússlandshers í Kherson

17.11.2022 - 21:16
FILE - Russian army soldiers stand next to their trucks during a rally against Russian occupation in Svobody (Freedom) Square in Kherson, Ukraine, on March 7, 2022. As Russian forces sought to tighten their hold on Melitopol, hundreds of residents took to the streets to demand the mayor's release. (AP Photo/Olexandr Chornyi, File)
Rússlandsher í Kherson. Mynd tekin í mars.  Mynd: Olexandr Chornyi - AP
Merki eru um pyntingar á líkum sextíu og þriggja almennra borgara í Kherson í Úkraínu. Rannsakandi á vegum úkraínska ríkisins segir ummerki um stórfelldar misþyrmingar. 

Rússneski herinn hörfaði frá borginni Kherson í samnefndu héraði í síðustu viku, eftir að hafa haft yfirráðin þar í átta mánuði. Dmytro Lubynets, sem rannsakar grimmdarverk Rússa, kveðst aldrei hafa séð nokkuð líkt því sem fundist hefur eftir að Rússar hörfuðu.

Fregnir hafa borist af stórfelldum misþyrmingum, misnotkun og pyntingum undir ógnarstjórn Rússa og nú þegar þeir eru farnir geta úkraínsk yfirvöld rannsakað máloin. Lubynets segir yfirvöld hafa fundið pyntingarklefa þar sem tugir hafi verið pyntaðir. Úkraínumönnum hafi verið gefið raflost og þeir lamdir með stálpípum. Hann segir úkraínsk yfirvöld búast við því að finna fleiri slík ummerki. Fundist hafa ellefu fangelsi á vegum Rússa og fjórir pyntingarklefar. Yfir sjö hundruð Kherson-búa er saknað. Óttast er að þeir hafi verið myrtir eða fluttir nauðungarflutningum til Rússlands. 

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, greindi frá því í kvöld að yfir tíu milljónir manna séu án rafmagns í landinu. Rússlandsher hefur síðustu vikur varpað fjölda sprengja á orkumannvirki. Rafmagnsleysið er útbreiddast í héruðunum Odesa, Vinnytsia og Sumi og í höfuðborginni Kyiv.