18 hugsanlegir hatursglæpir tilkynntir til lögreglu

17.11.2022 - 18:35
epa06856741 A man waves an LGBTI flag during the gay pride march, in Medellin, Colombia, 01 July 2018.  Gay parade marches are taking place at different places around the world to promote LGBTI rights and issues and condemn discrimination and violence toward lesbian, gay, bisexual, transgender and intersex (LGBTI) people.  EPA-EFE/LUIS EDUARDO NORIEGA A.
Í ár hafa flest málin tengst kynhneigð eða kynvitund.  Mynd: EPA-EFE - EFE
18 brot flokkuð sem hugsanlegur hatursglæpur voru tilkynnt til lögreglu á fyrri hluta þessa árs. Raunverulegur fjöldi slíkra glæpa er þó að líkindum mun meiri.

Í fyrra skráði lögregla 23 hugsanlega hatursglæpi, talsvert fleiri en árin á undan. Fyrstu sex mánuði þessa árs voru þeir orðnir átján.

„Ég held að við lesum út úr þessum tölum að það sé ekki nógu gott samhengi á milli raunatvika og þeirra sem eru tilkynnt til lögreglunnar. Það eru að okkar mati fleiri atvik sem eiga sér stað heldur en þau sem eru tilkynnt til okkar,“ segir María Rún Bjarnadóttir, verkefnastjóri stafræns ofbeldis hjá Ríkislögreglustjóra. 

Á síðustu árum hafa flestir hugsanlegir hatursglæpir beinst að fólki á grundvelli uppruna. Í fyrra voru slík mál þrettán. Í ár hafa hins vegar flest málin tengst kynhneigð eða kynvitund.

María segir að tölur lögreglu endurspegli ekki alltaf raunfjölda brota sem framin eru.

„Þessi gögn eru það sem við getum dregið úr lögreglukerfinu hjá okkur og lögreglukerfið speglar alltaf lagarammann að hverju sinni. Það sem við getum hins vegar sagt er að bæði ríkir vitund um þessi brot og við erum líka búin að bæta á síðustu árum færni lögreglunnar til að eiga við þessi brot.“

 

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV