Zelensky fullyrðir að eldflaugin sé rússnesk

epa10308408 Grain drying facility in Przewodow, Lublin Voivodeship, Poland, 16 November 2022. Poland has raised military readiness after a missile explosion killed two civilians in Przewodow, a Polish village near the border with Ukraine, November 15. 'The missile which fell on Polish territory was probably a 1970s Russian product. We have no proof of its being fired from Russia. It is highly probable that it belonged to the Ukrainian defence forces,' President Andrzej Duda said in a statement on 16 November.  EPA-EFE/WOJTEK JARGILO POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Enn er óstaðfest hvaðan eldflauginni sem féll á þorp í Póllandi í gær var skotið. Mestar líkur eru taldar á að úkraínsk loftvarnarflaug sem skotið var til móts við rússneska eldflaug hafi fallið á þorpið, með þeim afleiðingum að tveir karlar um sextugt létu lifið. Forseti Úkraínu fullyrðir að eldflaugin sé ekki úkraínsk, og forsætisráðherra Póllands vill ekki útiloka að þetta hafi verið vísvitandi árás.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fullyrðir í ríkissjónvarpi Úkraínu að eldflaugin hafi verið rússnesk. Kveðst hann hafa þær upplýsingar frá hernum. Þetta er á skjön við aðrar upplýsingar, meðal frá forseta Póllands, um að eldflaugin sé að öllum líkindum úr úkraínskri loftvarnabyssu. Zelensky segist engar sannanir hafa séð fyrir því að eldflaugin væri úkraínsk og ítrekaði bón þjóðaröryggis- og varnarmálaráðherra landsins um að taka þátt í vettvangsrannsókninni.

Eldflaugin hæfði pólska þorpið Przewodow um það leyti sem Rússar gerðu stórfellda árás á úkraínskar borgir. Árásin olli víðtæku rafmagnsleysi um Úkraínu, og í hluta Moldóvu.

Þrátt fyrir harmleikinn í þorpinu gekk allt sinn vanagang í dag. Börn mættu í skólann sem er nærri sprengjusvæðinu og aðrir mættu til sinnar vinnu.

Andrzej Duda, forseti Póllands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sögðu báðir í dag að líklegast væri að úkraínsk sprengja hafi fallið á þorpið. Þeir, líkt og aðrir vestrænir leiðtogar og ráðherrar sem hafa tjáð sig í dag, sögðu þó að afleiðingarnar væru engan veginn Úkraínumönnum að kenna. Ábyrgðin sé alfarið Rússa og stórfelldrar innrásar þeirra í Úkraínu.

Það eru fleiri en Úkraínuforseti sem efast um að þetta sé rétt atburðarás. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagðist á pólska þinginu í dag ekki vilja útiloka að eldflauginni hafi verið varpað vísvitandi á Pólland. Rússar væru þannig að ögra NATO-ríkjunum og vilji sjá hver viðbrögðin verða.

Sendiherrar aðildarríkja NATO áttu fund í morgun í Norður-Atlantshafsráðinu eins og það er kallað, æðstu stofnun NATO. Pólverjar báðu um þennan fund í gærkvöld - en þeir hafa til þessa ekki formlega kallað eftir því að virkja fjórðu grein sáttmála bandalagsins, sem fjallar um samráð aðildarríkja, ef þau telja friðhelgi eða öryggi sínu ógnað.