Nú er lag að stöðva stríðið, segir Zelensky

15.11.2022 - 06:14
epa10305075 Ukrainian President Volodymyr Zelensky speaks to the press during a visit to the recaptured city of Kherson, Ukraine, 14 November 2022. Ukrainian troops entered Kherson on 11 November after Russian troops had withdrawn from the city. Kherson was captured in the early stage of the conflict, shortly after Russian troops had entered Ukraine in February 2022.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nú er rétti tíminn til að binda enda á eyðileggjandi stríðsrekstur Rússa í Úkraínu og „bjarga þúsundum mannslífa“ sagði Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti þegar hann ávarpaði leiðtogafund 20 stærstu iðnríkja heims, sem hófst á Balí í Indónesíu í nótt.

„Ég er sannfærður um að akkúrat núna sé nauðsynlegt og mögulegt að stöðva eyðileggjandi stríð Rússa,“ sagði forsetinn, „það mun bjarga þúsundum mannslífa.“

Zelensky fordæmdi það sem hann kallaði „brjálæðislegar hótanir um beitingu kjarnavopna sem rússneskir embættismenn eru farnir að grípa til“ og vísaði þar meðal annars til orða Pútíns Rússlandsforseta, sem ítrekað hefur haft uppi óbeinar hótanir um beitingu kjarnavopna.

„Það eru ekki og verða aldrei neinar afsakanir til fyrir kúgun með kjarnavopnum,“ sagði forsetinn og þakkaði „G19“ - og undanskildi þannig Rússa - fyrir að segja þetta skýrum rómi.

Zelensky notaði tækifærið til að kalla eftir sérstökum, alþjóðlegum dómstól um glæpi Rússa gegn Úkraínu og ótímabundinni framlengingu á kornútflutningssamningnum. Sakaði hann Rússa um að vopnvæða hvort tveggja matvæli og hita með því að hindra kornútflutning og stöðva draga stórlega úr útflutningi á gasi, og kallaði eftir áframhaldandi stuðningi iðnríkjanna við uppbyggingarstarf og hernað Úkraínumanna.