Örverur úr Öxarfirði gætu nýst í framtíðinni

Mynd: Landinn / RÚV

Örverur úr Öxarfirði gætu nýst í framtíðinni

14.11.2022 - 15:18

Höfundar

Á Austursandi í Öxarfirði streymir metangas upp úr sandinum og myndar svokölluð gasaugu. Þar leynast örverur sem gætu nýst okkur í framtíðinni.

Landinn slóst í för með  vísindamönnum sem voru við rannsóknir á Austursandi í lok sumars. Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni við Háskólann á Akureyri, segir að aðstæður á sandinum séu mjög sérstakar.

„Það er hérna mjög þykkt setlag sem Jökulsá á Fjöllum hefur borið fram og þar undir er surtarbrandur og svo er jarðhiti þar undir. Þegar þetta kemur saman þá myndast klórsetin kolvatnsefni sem margir þekkja úr umhverfisfræðinni sem spilliefni. Það eru hérna bakteríur sem ættu að geta brotið þessi efni niður og það er mjög forvitnilegt að reyna að greina það nánar,“ segir Oddur. 

Markmiðið með rannsóknunum nú er greina hvaða bakteríur þetta eru, hvernig þær vinna og hvort hægt er að nýta þær. „Segjum til dæmis að það yrði mengunarslys sem þyrfti að hreinsa upp. Getum við þá bætt einhverjum næringarefnum út í jarðveginn til þess að hvata niðurbroti á þessum spillefnum eða getum við jafnvel mætt á svæðið með bakteríurnar sem við erum búin að rækta upp héðan og látið þær hjálpa til við að brjóta niður spilliefnin,“ segir Oddur.