Hitabylgju blótað í Hlíðarfjalli

14.11.2022 - 18:15
Mynd með færslu
Mynd tekin yfir sumartímann í Hlíðarfjalli Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Á Norðurlandi ríkir sannkölluð íslensk hitabylgja og eintómar hitatölur í kortunum næstu daga. Starfsmenn Hlíðarfjalls á Akureyri bíða þolinmóðir eftir meiri snjó til að opna brekkurnar.

Veðurklúbbur Dalbæjar spáði köldum nóvembermánuði

Veðurklúbbur dvalarheimilisins Dalbæjar er hópur eldri borgara sem hittist mánaðarlega og spáir í veður næstu vikna. Í spá nóvembermánaðar kemur fram að búist sé við svipuðu veðri og var í október en þó með minni lofthita, líkt og árstíminn gefi til kynna. Þessi spá virðist þó ekki ætla að ganga eftir það sem af er mánaðar, enda með eindæmum hlýtt á Norðurlandi núna og verður áfram út vikuna.

Áform um að opna Hlíðarfjall fyrr líklega runnin í sandinn

Þá eru vonir Magnúsar Arturo Batista, og samstarfsmanna hans í Hlíðarfjalli um að opna fyrr en formleg opnun segir til um, að öllum líkindum úti.

Sjá einnig: Farið að styttast verulega í opnun Hlíðarfjalls

„Eins og leit út fyrir mánuði að þá vorum við að fá snjó svolítið snemma og leit allt vel út en síðan hefur bara verið mjög mild tíð og eiginlega ekki komið neinn snjór. Þannig að staðan núna er að okkur vantar ennþá snjó, það hefur lítið komið að ofan, fallið náttúrulega, og þessir frostakaflar sem við höfum stundum verið að nota til að framleiða snjó hafa ekki komið þannig við erum svolítið bara að bíða eftir annaðhvort kulda eða snjónum.“

Og hvernig er fyrir starfsmenn skíðafjallsins að horfa á veðurspána þessa dagana þar sem eru eintóm hlýindi í kortunum?

„Við erum svolítið búin að vera í hverri einustu viku að vera að opna og endurræsa veðurstöðvarnar og sjá hvort það sé ekki eitthvað að koma en við verðum bara ennþá að bíða. Við erum mjög spennt fyrir fyrsta snjó.“

Magnús segir að starfsmenn fjallsins séu orðnir ýmsu vanir þegar kemur að veðurfari en viðurkenna verði að þetta sé óvenju milt sem af er vetri.