Talíbanar þrengja enn frekar að konum

13.11.2022 - 17:20
epa10298132 Afghans visit amusement park in Kabul, Afghanistan, 10 November 2022. Taliban's morality ministry said on 10 November that women will be restricted from accessing public parks. The United Nations and global rights groups have, over the 14 months of the Taliban rule, flagged rights violations against women and girls in Afghanistan since they entered the capital Kabul and took control of the country on 15 August last year.  EPA-EFE/STRINGER
Talíbanar bönnuðu konum að sækja skemmtigarða og almenningsgarða 10. nóvember 2022.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Afganskar konur eru ekki lengur velkomnar í líkamsræktarstöðvar og baðhús landsins, samkvæmt ákvörðun talíbana sem tilkynnt var í dag. Konum hafði áður verið bannaður aðgangur að almennings- og skemmtunum.

Talíbanar halda áfram að þrengja að frelsi kvenna og aðgengi þeirra að almenningsrýmum, þrátt fyrir fyrirheit um breyttar áherslur þegar þeir komust til valda í ágúst í fyrra. 

„Líkamsræktarstöðvar eru lokaðar konum vegna þess að þjálfarar þeirra eru karlar og sumar stöðvarnar voru fyrir bæði kyn, “ segir Mohammad Akif Sadeq Mohajir, talsmaður siðgæðisráðuneytis landsins. Baðhús, svonefnd Hammam, sem alltaf hafa verið með kynin aðskilin, eru einnig lokuð konum. „Nú eru öll íbúðarhús með baðherbergi þannig að þetta ætti ekki vera neitt tiltökumál fyrir konur.“

Afganistan dýflissa fyrir konur 

Sana, 23 ára háskólanemi, segir í samtali við AFP fréttastofuna að skýringin sé önnur. „Helsta ástæðan fyrir því að loka görðum, líkamsræktarstöðvum og baðhúsum er hugmyndafræði talíbana sem stjórnast af andúð á konum. AFganistan hefur breyst í dýflissu fyrir konur. Þeir vilja senda konur í svarthol. Með því að loka þessum stöðum fyrir konum eru konur gjörsamlega fangar á eigin heimili.“

Aðgerðasinnar segja að með banninu séu talíbanar að reyna að koma í veg fyrir að konur safnist saman til mótmæla talíbönum. Litlir hópar kvenna hafa ítrekað mótmælt í Kabúl og fleiri stórborgum og þannig hætt á reiði talíbana. 

Flestar konur sem störfuðu hjá hinu opinbera í Afganistan hafa misst vinnuna eða hefur verið greitt smáræði fyrir að halda sig heima. Konum hefur sömuleiðis verið bannað að ferðast án karlkyns ættingja og verða að hylja sig með búrku eða hijab-slæðu á almannafæri. Þá hefur skólum fyrir unglingsstúlkur verið lokað víðs vegar um landið. 

Sameinuðu þjóðirnar lýstu fyrr í mánuðinum áhyggjum eftir að talíbanar trufluðu fréttamannafund í höfuðborginni og skylduðu kvenkyns þátttakendur til líkamsleitar, fangelsuðu skipuleggjanda og fleiri.  

„Ég hef farið oft í garða og baðhús og það hefur alltaf gefið mér mikið, “ segir Fatíma, 19 ára í samtali við AFP. „Aldrei hefði hvarflað að mér að nærvera mín í baðhúsi eða líkamsræktarstöð gæti verið einhverjum til ama.“
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV