Fyrsta samfélagsmiðaða STEM fræðslunet landsins

13.11.2022 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: STEM Húsavík
Verkefninu STEM Húsavík hefur nú verið hleypt af stokknum. Þetta er fyrsta samfélagsmiðaða fræðslunet sinnar tegundar á landinu. Markmiðið er að efla íbúa og byggja upp færni.

Fræðslunet fyrir fólk í vísinda-, tækni-, verkfræði- og stærðfræðigreinum.

STEM er ensk skammstöfun sem stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði. STEM Húsavík er fræðslunet sem tengir saman ólíka aðila í samfélaginu í gegnum hágæða STEM-kennslu og eflir þannig samfélagið. Huld Hafliðadóttir er verkefnisstjóri STEM Húsavík hjá Þekkingarneti Þingeyinga.

„Markmiðið með þessu verkefni, STEM Húsavík, er að efla íbúa og byggja upp færni og við erum að hugsa til framtíðar að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum breytingum, bæði í náttúrunni, á atvinnuháttum og í tækni auðvitað. Markmiðið er að byggja upp þessa færni og sérstaklega hér á Húsavík að þá er það með því að tengja saman fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélagið þannig þetta eykur bæði STEM færnina en líka umhverfis- og náttúrulæsi íbúa.“

Vilja vera leiðandi fyrir önnur samfélög og dreifbýl svæði

Hún segir verkefnið fyrir alla þá sem vilja tengjast í gegnum þessar greinar og Húsvíkingar hafi tekið því vel.  „Við sjáum verkefnið fyrir okkur geta verið leiðandi fyrir önnur samfélög og sérstaklega erum við að horfa til dreifbýlli svæða þar sem að við þurfum verulega á þessari innspýtingu að halda, við þurfum að styrkja okkur til þess að eiga möguleika á jafnvel störfum í framtíðinni við erum að hugsa þetta líka út frá byggðarfræðilegu samhengi þannig vonandi getum við jafnvel aðstoðað önnur samfélög við að byggja upp álíka net.“