Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Benda hver á annan vegna myglu á hjúkrunarheimili

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Bæjarstjóri á Akureyri, segir ríkið bera alfarið ábyrgð á því hve langan tíma tók að bregðast við upplýsingum um heilsuspillandi myglu á hjúkrunarheimilinu Hlíð. Heilbrigðisráðherra segir mega rekja slæmt ástand hússins aftur til þess þegar Akureyrarbær fór með þjónustuna.

Heilsuvernd leigði húsnæði hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri, af ríkinu í upphafi árs 2021. Þar á undan var reksturinn um árabil í höndum Akureyrarbæjar, sem núna deilir eignarhaldi af húsinu með ríkinu.

Fréttastofa greindi frá því í gær að yfir tuttugu íbúar á Hlíð sæu fram á að þurfa að flytja af heimilum sínum, ýmist á aðrar deildir eða aðrar stofnanir, vegna myglu sem hefði greinst í húsinu í byrjun maí. Minnst þrír heimilismenn hafa fundið til einkenna sem þeir rekja til myglunnar, en einnig hafa nokkrir starfsmenn fundið til óþæginda.

„Ríki afhendir þriðja aðila húsnæðið án samráðs við okkur þannig við teljum að ábyrgðin liggi alfarið hjá ríkinu“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Forstjóri Heilsuverndar segir að húsið hafi verið komið til ára sinna löngu áður en að þau tóku við, þess vegna hafi þau krafist þess að úttekt yrði gerð á ástandi þess. Það leið hins vegar rúmt ár frá því að þau tóku við, þangað til að niðurstöðurnar, að húsið gæti verið heilsuspillandi, skiluðu sér til Heilsuverndar.

Heilbrigðisráðherra segir fleiri þurfa að borðinu

„Við þurfum bara að hugsa um hag sjúklinganna og laga þetta. Ég þarf að kanna það, það eru fleiri sem hafa komist í þessa skýrslu en Heilbrigðisráðuneytið, það þarf bara að skoða hvaða samskipti hafa átt sér stað. En það er hægt að rekja þetta mál aftur á síðasta ár, þegar Akureyri felur ríkinu, eða gefur frá sér þessa þjónustu til ríkisins.“

Heilbrigðisráðherra segir sitt ráðuneyti ekki leysa vandann upp á eigin spýtur, til þess þurfi bæjaryfirvöld, Heilsuvernd, fjármálaráðuneyti og framkvæmdasýslu ríkiseigna að borðinu.

Bæjarstjóri segir ábyrgðina alfarið hjá ríkinu

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir ábyrgðina liggja hjá ríkinu, ekki hjá Akureyrarbæ. Þau hafi lengi kallað eftir viðbrögðum í þessu máli, en ekki fengið.

„Við höfðum ekki upplýsingar um það að húsnæðið gæti verið heilsuspillandi. En við vissum það að ástand hússins væri ekki endilega gott. Það hefur staðið til í nokkurn tíma að hefja byggingu á nýju hjúkrunarheimili til þess að taka elsta hlutann úr húsnæðinu úr rekstri og það hefur legið fyrir. En vegna seinagangs hefur ekki hafist vinna við byggingu hjúkrunarheimilisins og sú starfsemi sem er í þessum elsta hluta átti að færast þangað.“