Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um nostalgíu

Mynd: alterfolio / Freeimages

Um nostalgíu

06.11.2022 - 13:00

Höfundar

„Er kynslóðin mín nostalgískari en kynslóðirnar sem á undan hafa komið? Er hún nostalgískari en exið? Nostalgískari en hipparnir?“ María Elísabet Bragadóttir, rithöfundur, fjallar um fortíðarþrá.

María Elísabet Bragadóttir skrifar:

Ég heiti María Elísabet og ég er nostalgísk.

Upphaflega hafði nostalgía læknisfræðilega þýðingu og má rekja sögu hugtaksins til sautjándu aldar en það er talið koma úr smiðju svissnesks læknanema. Hann á að hafa fundið upp orðið nostalgía og notað yfir þunglyndið sem hrjáði svissneska málaliða sem börðust fjarri heimahögunum. Nostalgía er nýaldarlatína og þýðing á þýska orðinu heimþrá en samansett úr tveimur grískum orðum, annars vegar orðinu nóstos sem þýðir heimferð eða heimkoma, og hins vegar álgos: Það er sársauki. Nostalgía þýddi semsagt upphaflega sjúkleg heimþrá.

Við lítum ekki á nostalgíu sem sjúkdóm í dag. Að segja að einhver finni fyrir nostalgíu er ekki á pari við að segja að einhver sé haldin geðrænum kvilla, við tölum ekki um klíníska nostalgíu. Nostalgía er yfirleitt skilgreind sem tilfinning. Við tölum kæruleysislega um hana. Ljúfsár tilfinning, meðvitund um tíma sem verður ekki endurheimtur eða endurlifaður. Í daglegu tali er nostalgía ekki talin af hinu slæma heldur jafnvel álitin jákvæð. Enda má ímynda sér að fólk sem telji sig vera nostalgískt eða hafi tilhneigingu til að finna fyrir nostalgíu – eigi öllu jafna í jákvæðu sambandi við fortíðina.

Við tölum oft um nostalgíu á persónulegan hátt. Við segjum að þetta eða hitt sé svo nostalgískt því það minnir okkur á eitthvað úr æsku. En nostalgían getur líka teygt sig lengra aftur. Ég var sjálf strax þungt haldin af nostalgíu sem barn og finnst þá í raun við hæfi að skilja hugtakið á sinn forna og upphaflega hátt, læknisfræðilega. Sem krakki var ég sjúklega upptekin af því sem var gamalt og tilheyrði mér og mínu æviskeiði alls ekki. Þess utan líka hnýsin út fyrir öll velsæmismörk. Hefði ég ekki verið eins huglaus og raun bar vitni (lofthrædd og sá drauga í hverju horni), hefði ég örugglega hreiðrað um mig á háaloftinu og neitað að koma niður aftur.

Ég verð bara hér, mamma, hér eru gömul bréf og myndaalbúm, þau eru fínn félagskapur, föt sem lykta einkennilega og halda á mér hita. Allt er þetta heilmikill skóli í sjálfu sér. Það dropar ofan í fötu, vatnið nægir mér til þrifa og drykkjar, skutlaðu einni samloku hingað upp, mamma, ef þú vilt vera svo væn. Ég get lifað góðu lífi á þessu leka háalofti.

En staðreyndin var sú að ég var skræfa og dauðhrædd við tréstigann upp og reyndar líka háaloftið sjálft. Stiginn var gamall og festingarnar ótraustvekjandi, það var eins og hann gæti hrunið hvað úr hverju. Dytti ég úr þessari hæð gæti ég í besta falli hálsbrotnað og lamast en í versta falli dáið. Svo óttaðist ég rottur og afturgöngur. Mér fannst því ekki annað í stöðunni en að senda litlu bræður mína upp á háaloft í minn stað.

Svo kallaði ég upp og vildi nákvæma úttekt. Ég var á nálum yfir því að þeim yfirsæjust einhver verðmæti en aldrei leiddi ég hugann að öryggi þeirra í þessum hættulegu aðstæðum. Ég var tilbúin að fórna þeim umhugsunarlaust í þágu nostalgíunnar, því auðvitað kynti þessi stemningsbunda dvöl mín í ímyndaðri fortíð undir nostalgískar tilfinningar. Sem betur fer gerðu engar afturgöngur sér dælt við bræður mína. Þeir lifðu þetta af og hafa náð fullorðinsaldri. Þökk sé þeim fletti ég í gegnum gulnuð myndaalbúm og strauk með lotningu níðþunga Mackintosh tölvu sem mér fannst bæði leyndardómsfull og sjarmerandi. Rak nefið ofan í stakt kúrekastígvél frá síðustu öld og gerði mér í hugarlund hvernig það lenti á þessu háalofti. Mátaði skósíðan pels og íhugaði hvort ég yrði fyrir aðkasti ef ég færi í honum í skólann. Skoðaði myndir af ömmu minni í æsku og varð bæði æst og hnuggin yfir því að amma ætti sér fortíð og bernsku. Ég komst í hryggðargalsa við tilhugsunina um hana sem krakka eins og mig sjálfa. Og hlutir þurftu ekki að vera hundrað ára gamlir til þess að þeir vektu upp nostalgíu. Ég fann púsluspil frá eldri systur minni og fannst það ómótstæðileg og dularfull táknmynd níunda áratugarins sem ég fékk ekki að lifa.

Svona leið æskan í tilfinningasamri fortíðarþrá sem ég viðurkenni að loðir enn við mig í dag. Ég er enn haldin hálfsjúklegum áhuga á fortíð látinna fjölskyldumeðlima en nem alls ekki staðar þar heldur hef líka áhuga á ættarsögu annarra og almennt öllu fólki sem lifði fyrir mína tíð og er löngu búið að yfirgefa hótelið. Óháð minni persónulegu reynslu, þá finnst mér við reyndar öll heltekin af nostalgíu.

Við lifum og hrærumst í henni.

Ég sé fólk á mínum aldri kyrrsetja börnin sín fyrir Disney myndirnar sem þau sjálf horfðu á í æsku. Jafnaldrar mínir hafa mörg hver enn ekki náð að yfirstíga innanskólapólitíkina sem ríkti í Hogwarts, skóla galdra og seyða árið 2003. Og þá þarf ekki að leita lengi til að finna nostalgískar áherslur á streymisveitunum, heilu sjónvarpsþáttaraðirnar sem ganga út á nostalgíu.

Er kynslóðin mín nostalgískari en kynslóðirnar sem á undan hafa komið? Er hún nostalgískari en exið? Nostalgískari en hipparnir? Ég tek pönkarana út fyir sviga. Það var ekki dropi af neins konar heimþrá í pönkurunum. Þeir voru með útþrá og burtþrá. Upphafning á fortíðinni eða tilfinningasemi í garð hins liðna fer enda ekki vel saman við fullkomið stjórnleysi.

Líkast til hefur þó samtíminn alltaf verið nostalgískur. Tilhneigingin að muna hið góða er sterk. Við getum ekki burðast með endalausa súld og rigningu í farteskinu, sólardagarnir eru léttari. Og það sem er gamalt hefur alltaf þótt flott. Fyrir nokkrum árum tók ég eftir því að menning sem reið röftum fyrir miðbik síðustu aldar herjaði á karlkynið. Þeir keyptu skeggolíu í gamaldagsumbúðum og púuðu vindla í veiðiferðum en smurðu yfir háttalagið þunnu lag af háði, eins og til að undirstrika vissa tegund af fjarlægð og gagnrýna hugsun. Kannski var þetta tískubóla sem sprakk út í kjölfarið á frægum sjónvarpsþáttum en auðvitað var þetta ekki ósnortið af nostalgíu. Sem fyrrum nostalgískt barn og nostalgísk fullorðin manneskja, vildi ég vita hvort eitthvað samsvarandi afturhvarf ætti sér stað hjá konum. Mér virtist ekki en reyndi að ímynda mér hvað það gæti verið. Brauðterta dúkkaði upp. En hvað fleira? Eldhúskrókur? Nælonsloppur? Valíumtöflur? Brauðtertan var pínulítið lokkandi og ég gat látið mig dreyma um vikulega lagningu, en hitt vildi ég láta eiga sig. Þessi tiltekni tíðarandi gerði ekki ráð fyrir mér og þess vegna þrái ég ekki að eiga heima í honum. Ég finn þar ekkert skemmtilegt sem ég á lúmskt menningarlegt tilkall til. Þá datt mér í hug að karlar hefðu ríflegra tilefni til nostalgíu en önnur kyn. Ég segi þetta en veit samt að nostalgían er lúmsk og hún hefur okkur öll á valdi sínu. Tískan fer viðstöðulaust í hringi, bara misjafnlega stóra og nostalgían er ísmeygilegt handabendi hennar. Ég fletti upp næsta áhrifavaldi á Instagram og sé þar brúnu barnaherbergin, krakka í sporsokkum með gráa sixpensara og í drapplituðum prjónagollum, klædd eins og fataskápurinn þeirra sé tímakista sem sogar þau aftur til upphafsáru síðustu aldar. Nostalgía. Heimþrá sem er sjúkleg því hún er þrá eftir veru í liðnum tíma. Sársaukafull því hún er meðvitund um það sem er ófáanlegt, það sem er ekki til og var kannski aldrei til.

Hvað segir nostalgían um okkur? Er hún í einhverjum tilfellum dulin afturhaldssemi? Eða getur smáskammtur verkað sem mótefni gegn blindri framfarahyggju? Það eitt er víst að völd nostalgíunnar eru ótvíræð. Hún umlykur okkur. Við erum dæmd til að móta afstöðu okkar, fagurfræði og smekk, gildismat og lífsskilning út frá fortíðinni.

Ég sagði vini mínum að ég væri að skrifa pistil um nostalgíu.

Ertu með ráð þá? spurði hann. Fyrir okkur sem erum langt leidd.

Nei, sagði ég.

María Elísabet Bragadóttir flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Pistlar

Um hugrekki

Pistlar

Krabbadýr sem ljómar í myrkri

Pistlar

Við erum búin til úr tíma

Menningarefni

Hin varhugaverða nostalgía