Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Musk brýndur til að gæta að mannréttindum á Twitter

epa06233680 CEO of Tesla, Elon Musk delivers a presentation at the International Astronautical Congress (IAC) in Adelaide, South Australia, Australia, 29 September 2017.  EPA-EFE/MORGAN SETTE  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hvetur nýjan eiganda samskiptamiðilsins Twitter að tryggja virðingu fyrir mannréttindum. Hann bendir á ríkar skyldur miðilsins á því sviði.

Auðkýfingurinn Elon Musk, nýr eigandi samfélagsmiðilsins, rak helming starfsfólksins á föstudag. Hann lagði meðal annars niður mannréttindadeild Twitter eins og hún lagði sig.

Það vakti ugg Volkers Turk, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem sendi Musk opið bréf í dag þar sem hann lagði þunga áherslu á skyldur samfélagsmiðla varðandi mannréttindi.

Volker Turk segir að Twitter, rétt eins og öll önnur fyrirtæki, verði að átta sig á þeim skaða sem miðlinum getur fylgt. Eigandi fyrirtækisins þurfi að hafa að leiðarljósi nauðsyn þess að hafa í handraðanum verkfæri til að bregðast við mögulegum mannréttindabrotum.

Musk hefur réttlætt uppsagnirnar með bágri fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem hann greiddi 44 milljarða bandaríkjadala fyrir eftir langt samningaþóf við fyrri eigendur. Nýi eigandinn segir aðgerðasinna hafa lagt að auglýsendum að hætta viðskiptum við miðilinn og þannig stuðlað að fjárhagstapi hans.