Musk hafði áður sakað stjórnendur miðilsins um ástundun ritskoðunar gagnvart notendum sem dreifa falsfréttum og áróðri. Nú hafa stórfyrirtæki á borð við General Mills ákveðið að hætta að birta tilkynningar og auglýsingar á Twitter.
Kelsey Roemhildt, talskona General Mills, segir fyrirtækið í sífellu endurmeta hvernig auglýsingafé sé varið. Fyrirtækið varð fyrst til að ákveða að hverfa á braut en The Wall Street Journal segir lyfjarisann Pfizer, Mondelez framleiðanda Oreokexins og bílaframleiðandann Volkswagen hafa ákveðið að gera það sama.
Fjöldauppsagnir fram undan
Elon Musk er ekki að tvínóna við hlutina en fjölda starfsmanna Twitter bíður uppsögn þegar í dag, föstudag. Ætlun eigandans með því segir hann vera að tryggja fjárhagslega afkomu samfélagsmiðilsins.
Nokkrir helstu stjórnendur fyrirtækisins voru reknir úr stöðum sínum umsvifalaust eftir að kaupin voru staðfest, þar á meðal forstjórinn Parag Agrawal.
AFP fréttaveitan kveðst hafa undir höndum tölvupóst þar sem starfsfólk var beðið að halda heim og mæta ekki til vinnu á morgun, föstudag. Starfsfólkið hefur búið sig undir uppsögn allt frá því Musk keypti Twitter fyrir 44 milljarða bandaríkjadala í liðinni viku.
Þeim sem halda vinnunni verður sendur póstur með yfirskriftinni „Hlutverk þitt hjá Twitter“ klukkan níu að morgni föstudags á vinnunetfang sitt en hinum á þeirra persónulega.
Ekki er vitað hve mörgum verður sagt upp en bandarísku miðlarnir Washington Post og New York Times telja að um það bil helmingur 7.500 starfsmanna verði látinn fara.