Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ný fjölmiðlalög taka á skuggahliðum netheima

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Upplýsingaóreiða, öryggi, hatursorðræða og fjölmiðlafrelsi er meðal þess sem fyrirhugaðar breytingar á fjölmiðlalögum taka á. Reiknað er með að fyrsta frumvarpið verði tekið fyrir á vorþingi. 

Vernd barna gegn skaðlegu efni

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Fjölmiðlanefndar frá því í fyrra nálgast flestir fréttir á netinu. Tveir af hverjum þremur landsmönnum nota samfélagsmiðla til að nálgast fréttir og yfir 90 prósent allra barna í grunn- og framhaldsskólum landsins nota Youtube. Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, yfirlögfræðingur Fjölmiðlanefndar, segir að til standi að innleiða nýjar reglur sem tryggja vernd barna á mynddeiliþjónustum á borð við Youtube, með frumvarpi sem væntanlega verður lagt fram á vorþingi. 

„Reglurnar sem gilda munu um þessar þjónustur eru í fyrsta lagi reglur um vernd barna gegn skaðlegu efni, í öðru lagi bann við efni sem hvetur til haturs, ofbeldis og hryðjuverka, og í þriðja lagi reglur um auglýsingar; það er að segja að það eigi að merkja þær með skýrum hætti og fleira.“

Hún tekur fram að ætlunin sé alls ekki að ritskoða efni miðlanna, heldur að hafa eftirlit með því að boðið sé upp á tæknileg úrræði til að takmarka aðkomu barna að skaðlegu efni, til dæmis með aldursstaðfestingakerfi og að notendum sé gert kleift að tilkynna skaðlegt eða ólögmætt efni. 

Önnur nýmæli í sama frumvarpi eru ákvæði um að streymisveitur tryggi að að minnsta kosti 30 prósent af því efni sem er í boði sé evrópskt efni. 

„Og þessar kröfur verða gerðar til allra streymisveitna á evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal Netflix í Evrópu.“

Ekki mikið gagnsæi fram til þessa

Önnur regluverk úr smiðju Evrópusambandsins sem stefnt er að því að lögfesta hér á landi snúa til dæmis að áskorunum og skuggahliðum netheima; upplýsingaóreiðu, djúpfölsunum og öðru vafasömu efni. Fjöldi manna víða um heim hefur atvinnu af því að fjarlægja efni og falska notendareikninga af samfélagsmiðlum.

„Og fram til þessa hefur ekki ríkt mikið gagnsæi um þessa starfsemi, það er alveg óhætt að segja það. Þá erum við að tala um algóryþma og hvernig þeir eru notaðir, meðmælakerfi og fleira.“

Ný löggjöf um stafræn málefni miðar til dæmis að því að breyta þessu. Samfélagsmiðlum og leitarvélum verður skylt að grípa til aðgerða til að vernda notendur, og ríkustu skyldurnar verða lagðar á þá sem eru með 45 milljónir notenda eða fleiri í Evrópu.

Samhliða var lögð fram önnur reglugerð sem inniheldur reglur um gagnsæi og viðskiptahætti stórra og fjárhagslega sterkra tæknifyrirtækja; þeirra sem teljast til svokallaðra hliðvarða og tengja saman stóran hóp fyrirtækja og stóran hóp viðskiptavina á netinu. Dæmi um slík fyrirtæki eru Amazon, Apple, Airbnb, Booking.com, Google, Facebook, Microsoft, App store og Google Play store. Þetta eru reglur eins og að Google megi ekki hampa eigin þjónustu í leitarniðurstöðum. 

Eiga að fjarlægja ólögmætt efni hratt

Nýju reglugerðirnar kveða á um að netvettvangar eigi að fjarlægja ólögmætt efni af miðlum sínum með skjótum hætti, hafi þeim borist tilkynning um tilvist þess, en jafnframt að bjóða upp á úrræði fyrir notendur til að kvarta, hafi efni þeirra verið fjarlægt.

Í hverju ríki verða útnefndir viðurkenndir tilkynnendur, sem á Íslandi gætu verið ríkislögreglustjóri, Barnaheill og höfundaréttarsamtök. Tilkynningar frá þeim aðilum fengju flýtimeðferð í kerfinu. 

Í reglugerð um fjölmiðlafrelsi er svo að finna ýmis ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttamiðla, vernd heimildamanna, sjálfstæði almannaþjónustufjölmiðla, gagnsæi eignarhalds og fleira.