Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segist áhugasöm um „breiða stjórn“ óháð úrslitum

epa10277592 Danish Prime Minister from the Social Democrats Mette Frederiksen and leader of The Alternative Franciska Rosenkilde during the party leader debate in the Common Hall at Christiansborg in Copenhagen, Denmark, 31 October 2022. There will be a general election in Denmark 01 November.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og formaður flokks Jafnaðarmanna, segist gjarnan vilja mynda ríkisstjórn flokka beggja vegna hinnar pólitísku miðju, jafnvel þótt vinstriflokkarnir nái að tryggja sér meirihluta þingsæta í þingkosningunum í dag. Leiðtogar Miðflokksins og Íhaldsflokksins efast um að hún standi við þetta.

„Ég veit ekki hvernig þingsætin skiptast á morgun,“ sagði Frederiksen í gærkvöld, „það er kjósendanna að ákveða það. En hvernig sem þau skiptast, þá munum við kanna möguleikann á „breiðri“ ríkisstjórn,“ sagði forsætisráðherrann.

Mai Villadsen leiðtogi Einingarlistans, sem er hvað lengst til vinstri á danska þinginu, segir það „stórkostleg mistök“ hjá Frederikson, fari hún þá leið ótilneydd.

Efast um að forsætisráðherrann meini þetta

Lars Løkke Rasmussen, formaður miðjuflokksins Moderaterne, er ekki sannfærður um að forsætisráðherranum sé alvara með þessari yfirlýsingu og segist í samtali við Danmarks Radio, viss um að Frederiksen vilji helst „hreina rauða“ ríkisstjórn eftir kosningar.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ef við fáum rauðan meirihluta [...], þá snýr Mette Frederiksen sér aftur að áætlun A,“ segir Rasmussen, og Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins er sömu skoðunar, samkvæmt frétt DR.

Miðflokkurinn líklega í lykilstöðu

Rasmussen hefur ítrekað lýst því yfir að hann og flokkur hans vilji mynda ríkisstjórn yfir miðjuna. Litlu munar á fylgi rauðu og bláu blokkanna, þótt sú rauða njóti eilítið meira fylgis samkvæmt skoðanakönnunum.

Ekki er útilokað að hún nái hreinum meirihluta, en þó þykir líklegra að Rasmussen verði í lykilstöðu þegar talið hefur verið upp úr hverjum kassa. Hann hefur vísað því á bug að hann sækist sjálfur eftir forsætisráðherraembættinu.

Engin hefð fyrir samstarfi yfir miðjuna

Frederiksen hefur tekið líklega í hugmyndir Rasmussens um „breiða stjórn“ flokka beggja vegna miðju, en forysta hægri flokkanna síður. Ekki er hefð fyrir slíku stjórnarmynstri í Danmörku, þar sem algengara er að önnur hvor blokkin myndi meirihlutastjórn eða einn eða fleiri flokkar myndi minnihlutastjórn, sem nágrannarnir í blokkinni verja falli.

Kjörstaðir verða opnaðir í Danmörku klukkan sjö að íslenskum tíma og verður þeim lokað klukkan 19. Kosið er um öll 179 sætin á danska þjóðþinginu; 175 þeirra í Danmörku, tvö á Grænlandi og tvö í Færeyjum. Kosningarnar í Færeyjum fóru þó fram í gær, þar sem Færeyingar syrgja og minnast drukknaðra sjómanna hinn 1. nóvember.