Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vantrauststillaga gegn Jenis av Rana vegna fordóma

31.10.2022 - 05:33
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Þingmenn færeysku stjórnarandstöðunnar og einn þingmaður úr röðum stjórnarflokkanna hyggjast leggja fram vantrauststillögu gegn Jenis av Rana, þingmanni hins kristilega Miðflokks og ráðherra mennta- og utanríkismála í færeysku landsstjórninni. Ástæðan er yfirlýsing ráðherrans um að hann geti ekki stutt samkynhneigðan forsætisráðherra.

Á vef fréttastofunnar Fonyhedsbureau segir að vantrauststillagan verði lögð fram um leið og færeyska Lögþingið kemur saman á ný eftir dönsku þingkosningarnar á þriðjudag, hvort sem búið verður að tryggja meirihluta fyrir henni eða ekki.

Ekki í lagi að nota ráðherrastöðu til að básúna persónulegar skoðanir

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins, segir flytjendur tillögunnar vilja komast að því, hver ábyrgð manna sé, sem gegni ráðherraembætti í landstjórninni. „Þú þarft að tala í samræmi við þá ábyrgð sem þú hefur, því þú ert fulltrúi allrar þjóðarinnar og getur ekki notað [ráðherrastöðuna] sem þinn persónulega vettvang,“ sagði Høgni í viðtali við Kringvarp Føroya um málið.

Johan Dahl, þingmaður Sambandsflokksins, sem á aðild að landsstjórninni, tekur í sama streng. „Þegar [Jenis av Rana], sem ráðherra utanríkismála, sem er fulltrúi þinn og minn og Færeyja í heild, setur okkur öll á sama bás með hans grundvallarafstöðu til samkynhneigðra, þá er það ekki í lagi,“ segir Dahl.

Að Dahl meðtöldum er tryggt að 16 af 33 fulltrúum á Lögþinginu styðja vantrauststillöguna og því þarf aðeins eitt atkvæði í viðbót til að fella Jenis af ráðherrastólnum.

„Kemur aldrei til greina“ að styðja samkynhneigðan forsætisráðherra

Upphaf málsins má rekja til umræðna í kosningaútvarpi hinn 25. október, þar sem hlustandi spurði Jenis av Rana hvort Miðflokkurinn myndi styðja hægristjórn í Danmörku, með samkynhneigðan forsætisráðherra í brúnni.

Hann svaraði því til, að það kæmi aldrei til greina. Það að lifa sem svokallaður samkynhneigður maður væri á skjön við hans persónulegu grundvallarreglur og grundvallarreglur flokks hans og Færeyja í heild, að hans mati.

Augljóst að vísað var til Sørens Pape Poulsen

Í sjónvarpsviðtali skömmu síðar sagðist Jenis aldrei hafa nefnt Søren Pape Poulsen í þessu sambandi, en augljóst þykir að hann hafi verið að vísa til formanns danska Íhaldsflokksins, sem nefndur hefur verið sem forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar og var stjórnandi útvarpsumræðnanna ekki í nokkrum vafa um það.

Þá sagðist Jenis ekki hafa talað sem ráðherra í landsstjórninni í umræðunum, heldur sem formaður Miðflokksins.

Sagði heimsókn Jóhönnu og Jóníu „ögrun“ og neitaði að sitja kvöldverðarboð með þeim

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jenis av Rana vekur reiði samþingsmanna sinna og annarra með yfirlýsingum sínum og framkomu í garð samkynhneigðra.

Mörgum er það enn í fersku minni þegar hann neitaði að sitja kvöldverðarboð með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Jónínu Leósdóttur konu hennar árið 2010, þegar Jóhanna var í opinberri heimsókn í Færeyjum.

Í viðtali við vefmiðilinn Vogaportalinn sagði Jenis heimsókn Jóhönnu og Jónínu vera hreina ögrun og ekki í samræmi við boðskap biblíunnar, og að honum dytti ekki í hug að sitja veisluna.