Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Engin tímasetning á Íslandsbankaskýrslu

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ríkisendurskoðandi hefur ekki sett tímamörk á hvenær embættið skilar forseta Alþingis skýrslu um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í skriflegu svari ríkisendurskoðanda við fyrirspurn fréttastofu RÚV. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í fréttum RÚV í morgun að skýrslan yrði ekki afhent í þessari viku. Útgáfu skýrslunnar hefur ítrekað verið frestað, en í fyrstu var búist við henni í júní.

Í svari ríkisendurskoðanda segir að nú sé farið yfir umsagnir fjármálaráðuneytis og Bankasýslu ríkisins um skýrsluna. Vinnan sé umfangsmikil. Þá segist ríkisendurskoðandi ætla að gefa Alþingi skýringar á hvers vegna svo langan tíma hafi þurft til að gera úttektina.

Þá segir ríkisendurskoðandi að sem stendur setji hann þessum lokafasa úttektarinnar ekki tímamörk. Þetta sé vandasöm vinna sem þurfi einfaldlega sinn tíma. „Annað er hvorki sanngjarnt gagnvart Ríkisendurskoðun né þeim sem úttektum af þessu tagi sæta,“ segir loks í svari ríkisendurskoðanda við fyrirspurn fréttastofu RÚV.