Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Aðgengi að börnum nánast óheft 

29.10.2022 - 08:09
Mynd: RÚV / Kristján Sigurjónsson
Samskipti barna og unglinga hafa breyst á undanförnum árum með tilkomu samfélagsmiðla og breytingarnar eru örar. Það er auðvelt að missa sjónar á samskiptamynstri unga fólksins ef foreldrar sofna á verðinum og fylgjast ekki með.

Spegillinn ræddi samskiptamynstur ungmenna og foreldra við Katrínu Mjöll Halldórsdóttur og Sturlu Brynjólfsson sálfræðinga hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni í Reykjavík og umsjónarmenn podcastsins Kvíðakastsins.

Hver sem er hefur aðgang 

„Út frá umræðunni í síðustu viku þá hefur maður tekið eftir því, og reyndar í svolítinn tíma, að umhverfið í kringum börnin okkar er svolítið að breytast" segir Katrín Mjöll. „Umhverfið er orðið meira stafrænt og fólk hefur aukið aðgengi að börnunum okkar allan sólarhringinn. Og maður hefur áhyggjur af því.

Ekki aðeins hefur hver sem er aðgang að börnunum okkar heldur er þetta oft fólk sem er nafnlaust. Og maður veit ekki hvort þetta er fullorðinn einstaklingur eða einhver í bekknum eða hver það er sem getur verið að áreita barnið  manns. Þetta er náttúrulega umhverfi sem maður hefur áhyggjur af.

Síðan er það ákveðin normalísering sem maður tekur eftir þegar krakkarnir tala um auknar hótanir. Það er verið að hóta þeim með líkamlegu ofbeldi og senda þeim skilaboð sem lýsa sér sem andlegt ofbeldi.  Þetta er eitthvað sem ég hef áhyggjur af í dag" segir Katrín Mjöll.

Eðlilegt að hóta 

„Það er búið að normalisera ofbeldisskilaboð og mér finnst eins og krakkir tali um það í dag eins og það sé bara eðlilegt" bætir Sturla við. „Og þessar breytingar með stafrænu þróuninni. Það er áhugavert að samskiptin hafa einhvern veginn almennt minnkað meðal fólks, en á sama tíma hafa þau aukist. Hvaða áhrif hefur þetta til lengri tíma?" spyr Sturla. 

Áttu við að samskiptin maður á mann hafi minnkað en aukist að sama skapi á snjalltækjunum?

„Já og líka á annan hátt. Ég man þegar ég var að alast upp að þá þekkti maður fólkið í hverfinu. Núna er maður að tala við krakka í Mosfellsbæ sem eru að hanga með krökkum í Hafnarfirði og tala við krakka úr öðrum hverfum. Þetta hefur verið mjög hröð þróun síðustu ár. Er þetta gott eða slæmt?" veltir Sturla fyrir sér. 

Börnin eins og svampar 

„Og maður tekur eftir því að foreldrar barna þekkja foreldra vina barna sinna ekki eins vel og áður" segir Katrín Mjöll. „Börn eru eins og svampar. Þau sjúga inn í sig allt sem er að gerast í umhverfi þeirra. þess vegna er mjög mikilvægt, ef við hugsum það út frá foreldrum, að þeir þurfa að vera fyrirmyndir".

Fullorðið fólk með hótanir 

„Það fór mjög fyrir brjóstið á mér þegar ég skoðaði fréttirnar síðustu daga og kommentakerfin að þá var fullorðið fólk að hóta gerendum, þolendum og foreldrum þeirra ofbeldi. Og maður hugsar; þetta eru fyrirmyndirnar, þetta er fullorðna fólkið á samfélagsmiðlunum. Þarna þarf fullorðna fólkið að vera fyrirmyndir. Bæði hvernig það hagar sér á samfélagsmiðlum, en líka heima. Hvernig talað er um fólk heima fyrir framan börnin sín" segir Katrín Mjöll Halldórsdóttir.

Lengra viðtal við þau Katrínu Mjöll og Sturlu má heyra í spilaranum hér að ofan.