Musk og stjórn Twitter hafa mánuðum saman tekist á um vanefndir hins fyrrnefnda á 44 milljarða dala bindandi kauptilboði hans í fyrirtækið, sem hann vildi rifta. Stjórn fyrirtækisins leitaði til dómstóls, sem úrskurðaði að Musk yrði að standa við samninginn og yfirtaka Twitter ekki síðar en í dag, föstudag.
Musk, sem er talinn auðugasti maður heims, á fyrir Tesla-bílaverksmiðjurnar og geimferðafyrirtækið Space-X. Twitter er einn mest notaði og áhrifamesti samfélagsmiðill samtímans og í frétt Washington Post segir að brottrekstur yfirmannanna sé til marks um að Musk ætli að standa við stóru orðin og gera róttækar breytingar á fyrirtækinu.
Vill slaka á eftirliti með skrifum notenda og reka meirihluta starfsfólks
Hann hafði lengi gagnrýnt nýrekna stjórnendur þess fyrir stefnu í markaðssetningu miðilsins og sakað þá um ritskoðunartilburði með því að úthýsa notendum sem dreifa hatursáróðri og falsfréttum. Musk lýsti því meðal annars yfir að hann myndi sjá til þess að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fengi að nýta sér miðilinn á ný, en hann var gerður útlægur af Twitter fyrir að dreifa falsfréttum.
Í færslu á Twitter í gær skrifað hinn nýi eigandi þó að „Twitter [megi] augljóslega ekki verða eitt galopið allsherjar horngrýti þar sem hægt er að segja hvað sem er án þess að það hafi nokkrar afleiðingar!“
Þá hefur hann sagt mögulegum fjárfestum að hann ætli sér að bæta afkomu fyrirtækisins verulega, meðal annars með því að reka allt að 75 prósent starfsfólks fyrirtækisins, ef og þegar hann eignaðist það.