Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gjaldþrotaskipti gætu þýtt gríðarlegt tap lífeyrissjóða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef samkomulag næst ekki milli ríkisins og kröfuhafa ÍL-sjóðs, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir, er líklegt að ríkið taki sjóðinn til gjaldþrotaskipta. Lífeyrissjóðir gætu þá orðið af gríðarlegum fjármunum.

1,5 milljarðar tapast í hverjum mánuði

ÍL-sjóður var stofnaður árið 2019 til að halda utan um lánasafn gamla Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn tapar um einum og hálfum milljarði króna á mánuði, eða 18 milljörðum á ári. Uppsafnað tap sjóðsins til 2044 er um 450 milljarðar á nafnvirði, eða 200 milljarðar að núvirði. Fjármálaráðherra vill komast hjá þessu og ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur um uppgjör skulda á næstu vikum. Náist ekki samkomulag væri hægt að knýja fram gjaldþrotaskipti með lagaheimild. Skuldabréfaeigendur fengju þá greiddan út höfuðstól og áfallna vexti miðað við hver staðan er í dag, en ekki áætlaðan framtíðargróða. Heildareignir sjóðsins eru nú um 663 milljarðar króna, en sjóðurinn skuldar 710 milljarða, eða 47 milljörðum meira en eignasafnið er metið á. 

Telur æskilegt að lífeyrissjóðir sameinist í viðræðum við ríkið

Viðræður ríkisins við kröfuhafa ÍL-sjóðs eru ekki hafnar. Lífeyrissjóðir eru langstærstu eigendur krafna í sjóðinn, eða um 80% eigenda, og verðbréfasjóðir um 10%, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að málið verði líklega tekið fyrir á fundi samtakanna á morgun. Ekki liggi fyrir hvort lífeyrissjóðirnir ætli að sameinast um viðræður við ríkið, en Þórey telur það æskilegt. 

Fréttin var uppfærð, þar sem af fyrri texta hefði mátt misskilja að kröfuhafar  myndu ekki fá höfuðstól greiddan við gjaldþrotaskipti.