Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fleiri og fljótari ferðir þýða fleiri með Strætó

Mynd: RÚV / RÚV
Til að fá fleiri til að taka strætó þarf fólk að geta treyst því að það taki ekki lengri tíma en að fara með einkabíl. Samgönguverkfræðingur segir að efla þurfi Strætókerfið til að gera hann að fýsilegri kosti fyrir fleiri.

Margir hafa gagnrýnt Strætó undanfarið eins og nýlega hækkun á fargjöldum. Byggðasamlagið Strætó var rekinn með miklu tapi í fyrra og deilt hefur verið um hvort ríkisvaldið hafi staðið við fyrirheit um fjárframlög. 

Hvernig er best að hafa strætókerfið þannig að flestir séu ánægðir?

„Það sem notendur eru að kalla mest eftir er náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú styttri ferðatími og aukin tíðni,“ segir Daði Baldur Ottósson samgönguverkfræðingur hjá Eflu.

Strætó þarf líka að komast leiðar sinnar, hvernig er hægt að redda því?

„Það er mikilvægt í rauninni að halda áfram að byggja upp sérrými fyrir Strætó á þessum stöðum að strætó haldi ekki áfram að vera í töfum.“

Hvar vantar helst sér akgreinar fyrir strætó?

„Það má nefna sem dæmi á Kringlumýrarbrautinni úr Kópavoginum, frá Hamraborginni að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.“

Vilja komast jafnfljótt og á bílnum

Strætó hlýtur að vilja fleiri notendur, hvernig fer Strætó að því?

Þetta helst í raun og veru allt í hendur. Ég held að þeir sem nota ekki strætó í dag, að þegar að það kemur að því að nota strætó að þá vilja þeir ganga að því gefnu að það taki ekki mikið lengri tíma að ferðast með strætó heldur en einkabílnum.“

Hvað væri besta kerfið fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu?

„Besta kerfið er að það séu ákveðnar stofnleiðir sem eru mjög skjótar og séu þar sem þéttingin er hvað mest, þar sem farþegagrunnurinn er mestur þannig að það sé auðveldast fyrir flesta að nota strætó.“

Virkar vel í Vancouver

Daði Baldur vinnur meðal annars að nýju leiðarkerfi fyrir Strætó. Hann var í framhaldsnámi í samgönguverkfræði í Seattle í Bandaríkjunum. En fór svo að vinna hjá samgöngusviði Vancouver borgar í Kanada. Þar var hann í nokkur ár með konu sinni, nýfæddu barni en hafði engan bíl. Á bílastæðum inni í úthverfum var nóg af deilibílum sem hægt var að nota ef Vancouver strætó hentaði ekki. 

„Strætisvagnarnir byrja snemma [í Vancouver] og ganga seint. Þar er næturstrætó. Og svo eru þeir að nýta svolítið svona sveigjanleika þegar snýr að gatnaumhverfinu að þar eru akgreinar sem eru fráteknar á annatíma sem annars eru opnar almennri umferð eða eru notuð sem bílastæði. Þar eins og annars staðar þar eru fleiri og fleiri sem sjá hag sinn í því að hjóla, ganga, taka strætó. Og það er í rauninni bara leiðin til framtíðar að fá fleiri til að ferðast með öðrum hætti en einkabílnum.“