Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

SAk fær heimild til hönnunar á nýrri legudeild

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið formlega heimild til hönnunar á nýrri legudeild. Áform um bygginguna voru fyrst rædd árið 2015, en markmiðið er að hún verði risin í lok árs 2027.

7,3 milljarðar í fjármálaætlun

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins á Akureyri, segir þau fagna þessum áfanga, loks sé búið að heimila að ráðast í áætlanagerð sem lengi hafi legið fyrir. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2023-2027 er gert ráð fyrir 7,3 milljörðum í verkefnið og stefnt á að byggingin verði tilbúin árið 2027.

Á deildinni er gert ráð fyrir um 84 legurýmum, fyrir skurðlækninga-, lyflækninga- og geðdeildir. Auk nýbyggingarinnar stendur til að endurnýja ýmislegt í eldri byggingum, sem skili sér í bættri dag- og göngudeildarþjónustu.

Ljóst 2015 að yrði að byggja

Starfshópur um umbætur á sjúkrahúsinu var skipaður af heilbrigðisráðherra fyrir sjö árum, en sá hópur hafði til hliðsjónar tíu ára gamlar tillögur um uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að nýbygging væri eini raunhæfi kosturinn til að leysa húsnæðisvanda sjúkrahússins.