Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ríkið hafi ekki staðið við fyrirheit um fé til Strætó

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Varaformaður stjórnar Strætó segir ríkisstjórnina hafa gefið vilyrði um aðstoð meðan kórónuveirufaraldurinn var í hámarki en lítið hafi verið um efndir. „Ég myndi aldrei bjóða út kannski allan reksturinn, en útboð á akstrinum t.d. það myndi taka alveg örugglega einhver þrjú fjögur ár,“ segir Alexandra Briem, varaformaður stjórnar Strætó bs. Notendum finnst frekar dýrt í Strætó. 

Sex hundruð milljóna króna tap var á rekstri Strætó bs á fyrri helmingi ársins og hefur aldrei verið jafn mikið. Haft er eftir Magnúsi Erni Guðmundssyni, formanni stjórnar Strætó, á Mbl.is í dag að við blasi að bjóða út reksturinn. Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Magnúsi í dag en án árangurs. 
 
„Ég held að við þurfum að skoða alla möguleika í stöðunni. En það er alveg ljóst að jafnvel þótt við myndum ákveða að fara í útboð á akstrinum - ég myndi aldrei bjóða út kannski allan reksturinn - en útboð á akstrinum t.d. það myndi taka alveg örugglega einhver þrjú fjögur ár,“ segir Alexandra Briem, varaformaður stjórnar Strætó bs.

Útboð myndi því ekki létta reksturinn nú. Vandi Strætó sé ekki vegna kostnaðar við akstur. 

„Rekstur Strætó gekk ágætlega fyrir covid. Það sem drepur fyrirtækið er í rauninni þessi 1,7 milljarður í tap á covid-árunum. Og það að ríkið kemur ekki inn með stuðning eins og hafði kannski verið flaggað fyrirfram,“ segir Alexandra.

En hvað finnst þeim sem nota strætó?

„Mér finnst það ágætt bara en þeir mættu vera með tíðari, reglulegri ferðir,“ segir Marta Jóhannsdóttir. 

Wasaf lætur vel af Strætó. „Það er mjög þægilegt að nota Strætó. Við fáum alltaf afgreiðslu. Við eigum ekki í neinum vandræðum með að nota Strætó.“

„Mér finnst bara strætó vera geðveikur - miðað við fólk sem getur ekki keyrt bíla. Sérstaklega fólk sem býr á tveimur stöðum, þá er þægilegast að nota strætó í skólann,“ segir Rannveig Hekla Pétursdóttir.

„Hann getur verið frekar óreglulegur stundum en yfirleitt þá er hann góður,“ segir Ægir Guðmundsson. 

„Mér finnst það fínt en miðað við Klapp-appið þá fer það versnandi,“ segir Úrsúla Baldursdóttir.

Fjármunir sem ætlaðir voru til kaupa á umhverfisvænni og ódýrari strætisvögnum kláruðust í covid.

„Þá var ekki hægt að fara í orkuskiptin eða endurnýjun á vögnum sem eru margir orðnir mjög gamlir og mikið til lélegir. Þá erum við sérstaklega viðkvæm fyrir olíuverðshækkunum vegna stríðsins í Evrópu,“ segir Alexandra.

Alexandra harmar að ríkið hafi í fyrra varið níu milljörðum í skattaafslátt til rafbílakaupenda en einum milljarði til Strætó. Ákveðið hafi verið að halda úti mikilli þjónustu strætó í covid. 

„Og það er hálfpartinn flaggað á það að sennilega muni koma einhver stuðningur. Svo kemur það ekki. Ef það hefði verið ljóst frá upphafi að það myndi ekki koma milljarður eða tveir heldur 120 milljónir eins og það varð, þá hefði strætó sennilega fyrirfram getað ákveðið að það þyrfti að draga úr þjónustunni yfir þetta tímabil. Þannig að þetta er svolítið bara versta mögulega samspil aðstæðna,“ segir Alexandra.

Um síðustu mánaðamót hækkuðu fargjöld strætó um tólf og hálft prósent.