Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gæti tekið Rússlandsher nokkur ár að ná fyrri styrk

epa10251533 US Secretary of Defense Lloyd Austin (R) welcomes Estonian Defense Minister Hanno Pevkur (L) at an honor cordon ceremony at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 18 October 2022. Pevkur and Austin discussed the situation in Ukraine during the ongoing Russian invasion.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Það gæti tekið tvö til fjögur ár fyrir rússneska herinn að ná sama styrk og fyrir innrásina í Úkraínu. Þetta er mat varnarmálaráðherra Eistlands sem vill að áfram verði af alefli haldið aftur af rússneskum stjórnvöldum.

Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, kveðst óttast að stríðið í Úkraínu dragist verulega á langinn. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli hans í heimsókn til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna.

Pevkur hitti varnarmálaráðherrann Lloyd Austin og hvatti vesturlönd til áframhaldandi samstöðu með Úkraínumönnum allt þar til „sigur næst til hagsbóta fyrir hinn frjálsa heim,“ eins og hann orðaði það. 

Hann kveðst hafa heyrt orðróm þess efnis að Rússar hafi beitt eldflaugavarnakerfum til árása vegna skorts á vopnabúnaði. Sömuleiðis hafi elli orðið til þess að sprengikúlur tættust í sundur áður en þær náðu skotmarki sínu. 

Þvingunaraðgerðir skaða flugvélaiðnað Rússa

Pevkur sat hringborðsumræður með fulltrúum utanríkis- og varnarmálaráðuneyta Bandaríkjanna þar sem hann sagði þvingunaraðgerðir vesturlanda einkum hafa skaðað flugvélasmíði Rússa og viðhald á þyrlum.

Ástæðan væri skortur á nauðsynlegum íhlutum og því hvatti hann til enn frekari aðgerða. Hann sagði Rússlandsher það skaddaðan að það tæki hann langan tíma að ná fyrri styrk, hið minnsta tvö til fjögur ár.

Þrátt fyrir það sagði varnarmálaráðherrann Rússa enn geta lagt til atlögu, til að mynda gegn Eistlandi, sem er í Atlantshafsbandalaginu.

Pevkur telur Rússa ekki sjá sér akk í beitingu kjarnavopna, þeim hefði þegar tekist að valda töluverðum usla í Úkraínu með hefðbundnum vopnum. Slíkt athæfi, sagði hann að yrði til þess að Rússar nytu ekki lengur þöguls stuðnings ríkja á borð við Kína.