Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Innflutningur frá Rússlandi jókst milli mánaða í Noregi

Gömul stífla við vatnsaflsvirkjun við Svartavatn í Rogalandi í Noregi
Öfugt við margar Evrópuþjóðir aðrar eru Norðmenn ekki upp á Rússa komnir með orkugjafa.  Mynd: Ljósmyndari: Karen Marie Straum - NVE.no
Innflutningur Norðmanna á rússneskum varningi hefur aukist að verðmæti upp á síðkastið, eftir að hafa dregist saman fyrri hluta árs. Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft takmörkuð áhrif á innflutning rússneskra vara til Noregs, þrátt fyrir allar þær viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir sem innleiddar hafa verið frá því að innrásin hófst.

Samkvæmt frétt norska blaðsins Aftenposten, sem vísar í tölur norsku hagstofunnar, hefur innflutningurinn dregist saman um 7,2 prósent að verðmæti frá því sem hann var fyrir innrásina.

Í september fluttu Norðmenn hins vegar inn rússneskar vörur fyrir 1,4 milljarða norskra króna, jafnvirði 19 milljarða íslenskra króna. Það er 18,2 prósentum meira en í ágústmánuði.

Aftenposten hefur eftir Jakub M. Godzimirski, sérfræðingi hjá Utanríkismálastofnun Noregs, að þetta skýrist fyrst og fremst af hækkandi verði innflutningsvarnings. „Jafnvel þótt verðmætið hafi aukist, þá hefur magnið minnkað,“ segir Godzimirski.