Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ferða- og útgöngubann í Úganda vegna ebólu

16.10.2022 - 03:23
Ugandan President Yoweri Museveni speaks, during the 60th Independence Anniversary Celebrations, in Kololo, Uganda, Sunday Oct. 9, 2022.  (AP Photo/Hajarah Nalwadda)
Forseti Úganda, Yoweri Museveni, flytur hér ávarp á 60. þjóðhátíðardegi Úganda 9. október 2022. Hann tilkynnti á laugardag útgöngu- og ferðabann í tveimur héruðum vegna ebólufaraldurs sem þar er að kvikna Mynd: AP
Stjórnvöld í Úganda hafa innleitt ferðabann og útgöngubann um nætur í tveimur héruðum landsins, þar sem nýkviknaður ebólufaraldur er talinn eiga upptök sín. Heilbrigðisyfirvöld greina frá því að 19 hafi látið lífið úr þessum skæða veirusjúkdómi síðan fyrsta tilfellið í þessum nýjasta faraldri greindist í landinu hinn 20. september síðastliðinn.

Alls hafa 58 greinst með veiruna til þessa. Heilbrigðisyfirvöld segja faraldurinn takmarkast við héruðun Mubende og Kassanda um miðbik landsins og ekki hafa teygt sig til höfuðborgarinnar Kampala enn, þrátt fyrir að hjón í borginni hafi greinst með veiruna. Þá lést einn maður af völdum ebólu í Kampala fyrr í þessum mánuði, en hann er talinn hafa smitast í Mubende og ekki smitað neinn í höfuðborginni.

Ferða- og útgöngubann í þrjár vikur

Í sjónvarpsávarpi á laugardag greindi Yoweri Museveni Úgandaforseti frá því að hann hefði gefið út tilskipun um ferðabann til og frá héruðunum tveimur, útgöngubann um nætur og lokun útimarkaða, kirkja, öldurhúsa og annarra samkomustaða næstu þrjár vikur, til að hindra frekari útbreiðslu veirunnar.

Ekkert bóluefni er tiltækt gegn því afbrigði ebólu sem nú geisar í Úganda, öfugt við eldra og algengara afbrigði sem herjað hefur á Lýðstjórnarlýðveldið Kongó og nokkur ríki Vestur-Afríku. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV