Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hversdagsleg rútína sem breytist í gullmola

Mynd: Benedikt Nikulás Anes Ketilsson / Kastljós

Hversdagsleg rútína sem breytist í gullmola

13.10.2022 - 13:43

Höfundar

Það er sláttur á Guðjóni Ketilssyni myndlistarmanni þrátt fyrir að hann hafi verið að í yfir fjörutíu ár. Hann fékk Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2020 og þessa dagana stendur yfir yfirlitssýningin Jæja á Kjarvalsstöðum. 

Guðjón Ketilsson er fæddur 1956 og er sjötti listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. 

„Þetta er einn okkar ástsælasti listamaður þannig það eru margir sem þekkja verkin hans,“ segir Markús Þór Andrésson sýningarstjóri. „En svo er svo gaman að taka þessu ólíku verk hans saman, þau eru frá ólíkum tíma og margt í gangi. Hann fer úr einu í annað, bæði efnislega og hugmyndafræðilega þannig að verkin eru hvert öðru ólíkara. En það er rauður þráður í gegn sem snýst um hversdagslífið, tilveruna frá degi til dags, láta lífið koma sér á óvart, koma auga á það sem er í kringum okkur í hversdeginum og vinna með það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar vinnur mikið með fundna hluti á sýningum sínum

Guðjón segir ánægjulegt að sjá ferilinn eimaðan niður í eina sýningu. „Það er svolítið undarlegt að taka upp úr kössum eldgömul verk og stilla þeim saman við nýrri og ég hugsa: „Hvað var þessi náungi að pæla fyrir 30 árum?“ En ég sé kannski meira samhengi í þeim en ég átti von á. Kannski er maður alltaf að pæla í sömu hlutunum.“

Hann vinnur mikið með fundna hluti eins og Markús bendir á. „Hvort sem það er dótarí eða drasl sem verður á vegi hans á götunni, eða hvort það er úr menningararfinum eða listasögunni, einhverjir textar, alls konar hlutir sem koma upp í hendurnar á honum og hann vinnur með í hógværri, hversdagslegri rútínu og svo smá saman eftir því sem árin líða koma gullmolanir hver á fætur öðrum.“ 

Guðjón segist vera mikill rútínufíkill. „Ég fer á vinnustofuna á hverjum degi og út úr einhverju fikti kemur oft eitthvað sem skiptir svo einhverju máli, og verður grunnur að einhverju sem skiptir máli, og þegar ég tala um að vinna er ég líka að tala um að fara í göngutúra og hugsa. Þetta er ekki allt fýsísk vinna.“ 

Hann segist ekki líta yfir ferilinn og sjá há- og lágpunkta. „Í raun hefur þetta verið svolítill sígandi, að minnsta kosti seinni árin. Mér líður betur í því sem ég er að gera núna en fyrir tíu árum og held ótrauður áfram.“

Fjallað var um yfirlitssýninguna Jæja í Kastljósi. Hægt er að horfa á innslagið í heild í spilaranum fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Pistlar

Handan einskærrar framsetningar á afstöðulist

Myndlist

„Eldarnir færast alltaf nær okkur“