Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brottrækur leyniþjónustuforstjóri lætur gamminn geisa

13.10.2022 - 16:49
epa10240840 Danish former foreign intelligence chief Lars Findsen signs copies of his new book 'Spionchefen - Erindringer fra celle 18' (lit: Spy chief - Memories from Cell 18) in Copenhagen, Denmark, 13 October 2022. Findsen used to be Head of the Danish Defence Intelligence Service. He is indicted in a criminal case for divulging state secrets to several people after he was sent home from the top post in the Defense Intelligence Service in August 2020.  EPA-EFE/Emil Helms DENMARK OUT
Lars Findsen áritaði nýútkomna bók sína í forlagi Politiken í Kaupmannahöfn í dag. Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Lars Findsen, brottrækur leyniþjónustuforstjóri í Danmörku sem sætir ákærum fyrir uppljóstrun ríkisleyndarmála, segist vera fórnarlamb pólitískra hrossakaupa. Hann hafi verið sendur í leyfi árið 2020 til að tryggja ríkisstjórninni stuðning.

Findsen var vikið frá störfum tímabundið árið 2020 meðan fram fór úttekt á grunsemdum um að leyniþjónusta danska hersins hefði stundað ólöglegt eftirlit innan Danmerkur. Stofnunin á aðeins að fylgjast með erlendri ógn.

Findsen segir hins vegar að dómsmálaráðherra landsins, Trine Bramsen, hafi gefið það í skyn á fundi þeirra að ríkisstjórnin þyrfti að geta „talið upp í 90“ – þ.e. tryggt sér áframhaldandi stuðning minnst 90 þingmanna, en það er sá fjöldi sem þarf fyrir meirihluta á danska þinginu, þar sem 179 þingmenn sitja. 

Allt kemur þetta fram í bók sem Findsen gaf út í dag og nefnist Leyniþjónustuforstjórinn – endurminningar úr klefa 18 (Spionchefen – erindringer fra celle 18). Bókin var skrifuð á meðan Findsen sat í gæsluvarðhaldi um tveggja mánaða skeið frá því í desember fram í febrúar á þessu ári.

Gæsluvarðhaldið hafði þó ekkert með meintar njósnir á dönskum borgurum að gera; því máli hafði lokið með því að rannsóknarnefnd hreinsaði leyniþjónustuna af öllum sökum.

Það sem hangir yfir Findsen þessa dagana og er ástæða þess að hann sætti gæsluvarðhaldi fyrr á árinu, er ákæra fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum til móður sinnar, kærustu og fleiri. Fjallað var um málaferlin gegn Findsen í Speglinum í síðasta mánuði.

Sakar skrifstofustjórann um að hagræða sannleikanum

Síðustu misserin, meðan Findsen var í leyfi frá störfum, hafði hvert fréttamálið um málefni leyniþjónustunnar rekið annað og upplýsingar, sem ekki voru alltaf stjórnvöldum þóknanlegar, ratað í fjölmiðla. Spjótin beindust fljótt að Findsen.

Í bókinni rekur Findsen til að mynda fundi sem hann sat með Barböru Bertelsen, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, og fleiri embættismönnum og segir erindi fundarins hafa verið að samræma upplýsingagjöf vegna tiltekins máls.

„Ég upplifði að Barbara Bertelsen vildi setja upplýsingarnar fram á þann hátt að dómsmálaráðuneytið kæmi sem best út,“ sagði hann. Staðreyndir hafi skipt minna máli.

Þótt hann nefni ekki málið sem um ræðir – hann segist bundinn trúnaði – þykjast danskir miðlar sannfærðir um að fundurinn hafi fjallað um stórfurðulegt mál Ahmed Samsams.

Fjölmiðlar opinberuðu það í fyrra að Samsam, sem hafði verið dæmdur í átta ára fangelsi á Spáni fyrir að tilheyra hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu – hann hefði í raun verið sendur þangað á vegum leyniþjónustu danska hersins, með fé og tiltekið verkefni. Þess má geta að Samsam afplánar enn dóminn, í dönsku fangelsi.

Sennilega er enginn skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti þekktari í heimalandi sínu en Barbara Bertelsen, en hún lék lykilhlutverk í minkamálinu í Danmörku þegar tekin var ákvörðun um að slátra öllum dönskum minkum án þess að fyrir því væri lagaheimild. Fékk hún bágt fyrir í rannsóknarskýrslu danska þingsins.

Segir leyniþjónustuna hafa reynt að múta sér

Fleiri bitastæðar ásakanir eru í bók Lars Findsen. Hann sakar til að mynda leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, PET, um að hafa reynt að semja við hann meðan hann sat í gæsluvarðhaldi.

Leyniþjónustan myndi tryggja honum vægari dóm í lekamálinu ef hann játaði á sig einhvern hluta ákæranna og, það sem meira er, segði þeim hverjir væru að leka upplýsingum til fjölmiðla.

Jørn Vestergaard, lagaprófessor við Hafnarháskóla, segir í samtali við DR að sé þetta rétt – sem hann efast ekki um – þá hafi leyniþjónustan brotið gegn dönskum réttarfarslögum. Það sé vel þekkt að óheimilt sé að bæði hóta og reyna að múta grunuðum mönnum við yfirheyrslur.

Frederiksen treystir réttarkerfinu

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, vildi ekki tjá sig beint út um ásakanir Findsen þegar danskir miðlar leituðu eftir því í dag. Hún segist hins vegar hafa fulla trú á dönsku réttarkerfi og það eigi einnig við um mál Findsen.

Þá gefur hún lítið fyrir hugmyndir stjórnarandstöðuflokka á danska þinginu sem hafa krafist þess að skipuð verði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á þessu stærsta njósnahneyksli í danskri sögu.

epa09719982 Danish Prime Minister Mette Frederiksen (C), Foreign Minister Jeppe Kofod (L) and Minister of Defense Trine Bramsen (R) present Denmark's new foreign and security policy strategy at a press conference at Marienborg in Lyngby, Denmark, 31 January 2022.  EPA-EFE/CLAUS BECH  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Lars Findsen sakar ríkisstjórnina um að hafa fórnað sér til að halda völdum.