Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

ASÍ klofið eftir að forkólfar tóku aftur framboð sín

Mynd: RÚV / RÚV
Alþýðusamband Íslands er klofið segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar eftir að hún, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins drógu framboð sín í forystu ASÍ til baka í dag. Vilhjálmur biður launafólk afsökunar á að fulltrúar ASÍ-þingsins hafi ekki náð samstöðu. Framhald aðildar félaganna að ASÍ ræðst eftir samtöl innan félaganna. 

Klukkan hálfþrjú í dag var settur á dagskrárliðurinn önnur mál á þingi ASÍ. Þar tilkynntu þau Ragnar Þór, Vilhjálmur og Sólveig Anna að þau drægu framboð sín til forseta, 2. varaforseta og 3. varaforseta til baka. Þingið fór fram fyrir luktum dyrum.

Kom á óvart

Þegar gert var stutt hlé var greinilegt að fólki var brugðið eins og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur eina frambjóðanda til forseta ASÍ:
„Þetta bara kom á óvart og ég er kannski svolítið bara að halda utan um þetta.“
Ertu í sjokki?
„Pínu kannski en ég er kannski meira hissa heldur en í sjokki.“

Vill ekkert segja á þessu stigi

Enn var fundað og loks skunduðu formennirnir þrír af þingi:
Viltu ekkert segja um þessi stóru tíðindi í dag?
„Ekki á þessu stigi, nei,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. 
Hvenær má vænta þess að heyra frá þér?
„Mjög fljótlega, mjög fljótlega.“

Biður launafólk afsökunar

Vilhjálmur Birgisson form. Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness svaraði spurningunni um hvað þetta þýði:
„Það þýðir bara slæmt. Og ég vil bara biðja íslenskt launafólk afsökunar á því að hér hafi ekki náðst samstaða um að stilla bökum saman, koma fram sem ein heild. Því miður er of mikið um persónulegt níð og hatur á milli einstakra forystumanna.“
Er Starfsgreinasambandið að draga sig út úr ASÍ?
„Nú bara förum við heim í okkar héruð og bara tökum stöðuna og vegum og metum framhaldið. Það er ekkert annað sem við gerum. Forystumaður í stéttarfélagi er ekki neitt án sinna félagsmanna og við þurfum bara að heyra í okkar félagsfólki,“ segir Vilhjálmur.

Það gæti verið á brattann að sækja hjá Vilhjálmi því margir formenn aðildarfélaga innan Starfsgreinasambandsins hafa gagnrýnt Ragnar Þór og Sólveigu Önnu harðlega. En Sólveig Anna er formaður Eflingar og Efling er aðildarfélag í Starfsgreinasambandinu. 

Nokkuð augljóst að ASÍ er klofið

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar gekk af fundi með fjölmennum hópi fulltrúa Eflingar á þinginu: 
Nú er bæði VR og Efling, þetta eru ein stærstu, fjölmennustu félög innan ASÍ. 
„Þetta eru tvö stærstu félögin.“
Já, og má þá segja það að með deginum í dag að ASÍ, Alþýðusamband Íslands, sé klofið?
„Já, ég held að það sé nokkuð augljóst. Stór meirihluti þingfulltrúa var rétt í þessu að ganga hér út. Þannig að ég held að það sé augljós ályktun að draga.“
Voru þetta samantekin ráð hjá ykkur Ragnari og Vilhjálmi?
„Meinarðu að fara hér út?“
Já.
„Já, ég held að það hljóti nú að vera ljóst að fólk hefur augljóslega rætt saman og komist að þessari niðurstöðu,“ segir Sólveig Anna.

Hún viðhafði í dag þung orð um framgöngu Ólafar Helgu Adolfsdóttur ritara Eflingar. Sólveig ætlar að funda með Eflingarfélögum um framhaldið og augljóst var af fagnaðarlátum félaga hennar í dag að þau voru ánægð með ákvörðunina. 

80 þúsund af 130 þúsundum eru í VR eða EFlingu

Samtals eru um 130 þúsund launamenn innan ASÍ. Af þeim eru nærri 50 þúsund í VR og nærri 30 þúsund í Eflingu. Gangi þau úr ASÍ verða 50 þúsund eftir. Þingi ASÍ verður fram haldið á morgun. Þá er forsetakjör á dagskrá og enn hægt að bjóða sig fram.