Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tónlist og hið díónýsíska

Mynd: Secret Solstice / Secret Solstice

Tónlist og hið díónýsíska

08.10.2022 - 11:40

Höfundar

Gunnar Jónsson, pistlahöfundar Lestarinnar, rifjar upp viðburð sem átti sér stað í Laugardalshöllinni árið 2016, tónleika Die Antwoord.

Gunnar Jónsson skrifar:

Ég hitti plötusnúð á Laugaveginum í miðju COVID-ástandi fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan og fór að spyrja hann út í nýju vinnutímana hans. Sérstaklega gerði ég þau mistök að spyrja hann hvort það væri ekki bara fínt að vera kominn heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma aldrei þessu vant. Plötusnúðurinn brást ókvæða við. Nei, það var bara ekkert fínt, að hans mati, og plötusnúðurinn tók mörg augljós dæmi máli sínu til stuðnings: Vaktirnar hans styttust heilmikið, fólk dansaði minna og svo framvegis. 

En hann tiltók líka önnur rök sem ég held að við, „siðmenntaðir“ Íslendingar eigum dálítið erfitt með að kyngja. Plötusnúðurinn sagði að það væri eitthvað sem gerðist eftir klukkan tvö á nóttunni á djamminu, þegar fólk er orðið nógu drukkið og kærulaust og lausnamiðuð skynsemi vinnuvikunnar lýtur í lægra haldi fyrir díónýsískum mætti næturinnar. Þá værum við frjáls og hömlulaus, samkvæmt plötusnúðinum, og að setja sig á móti þessu hömluleysi væri einhvers konar púritanísk hefting eða trúarkredduskömm sem við þyrftum nauðsynlega að hafna af og til, ellegar sturlast. Að mati plötusnúðsins var það lýðheilsumál að hætta stundum að meika sens og dansa tryllt og jafnvel detta í sleik á klístruðu dansgólfi klukkan hálf fimm um nótt.

Og þá komum við að raunverulegu efni þessa pistils, kæri lesandi, því það gerðist á hinu herrans ári 2016 að haldnir voru tónleikar sem voru hættulegustu og lausbeisluðustu og díónýsískustu tónleikar sem ég hef farið á á ævi minni, og ég er duglegur að fara á tónleika. Og ég er bara að segja ykkur frá þessu því ég er eiginlega alveg 100% á því að þetta hafi gerst og það verður að vera að minnsta kosti einn pistill til um málið á RÚV. Það bara verður að vera heimild um þessa vitleysu.

Sem sagt, 2016 var Secret Solstice hátíðin haldin með pompi og prakt í Laugardalnum, íbúum Laugardalsins til mikillar armæðu en nokkurn veginn öllum öðrum til mikillar ánægju. Stór nöfn voru bókuð á hátíðina, þar á meðal tilraunakennda dægurlagasveitin Radiohead frá Bretlandi og hin suður-afríska rappsveit Die Antwoord. Hin síðarnefnda sveit hefur síðan lagt upp laupana andspænis fjölmörgum alvarlegum ásökunum um ofbeldi af ýmsum toga, en 2016 höfðu engar ásakanir komið fram og Íslendingar voru peppaðir fyrir heimsókn þessara furðuvera frá Höfðaborg.

Hátíðin endaði hins vegar á því að vera plöguð af alls konar erfiðleikum. Miklar raðir mynduðust, löggan var með sína klassísku stæla og þegar það var tilkynnt að tónleikar Radiohead yrðu haldnir í nýju Laugardalshöllinni varð mörgum ljóst að aðeins lítill hluti hátíðargesta myndi komast að. Þetta var sérlega óheppilegt, því stór hluti þeirra sem keyptu armband á Secret Solstice 2016 gerðu það gagngert til að sjá Radiohead og síðan kannski ná Die Antwoord á útisviðinu á sunnudeginum ef það væri í stuði. Langar og ruglingslegar raðir mynduðust fyrir utan höllina fyrir Radiohead giggið á föstudeginum. Sumir misstu af öllum öðrum viðburðum dagsins til þess eins að bíða eftir tónleikum sem þeir komust síðan ekki inn á. Útundan mér heyrði ég megnar óánægjuraddir með skipulagið og á sunnudeginum var ljóst að það var komin ákveðin kergja í hópinn. Það var eins og spenna væri búin að byggjast upp jafnt og þétt yfir hátíðina en enginn hafði fengið tækifæri til að losa almennilega um hana. Það var orðið ljóst að Die Antwoord á útisviðinu á sunnudeginum yrði síðasti séns fólks til að sletta ærlega úr klaufunum.

Og hvað heldur þú, kæri lesandi, að hafi síðan gerst? Jú, á seinustu stundu á sunnudeginum var tilkynnt að fluginu sem innihélt meðlimi Die Antwoord hefði seinkað töluvert og nú væri orðið of seint að halda háværa rapptónleika á útisviðinu. Tónleikarnir höfðu verið færðir inn í gömlu höllina og jafnvel færri en komust á Radiohead myndu komast að. Það var á þessum tímapunkti sem mér hætti að lítast á blikuna, það var nefnilega á þessum tímapunkti sem gestir Secret Solstice hátíðarinnar 2016 sturluðust. 

Engar reglur um háttsemi áttu lengur við, hátíðargestir tróðu sér bókstaflega inn í gömlu höllina og greyið sjálfboðaliðarnir í hurðinni voru í engri aðstöðu til að berjast gegn stórfljótinu. Ég náði blessunarlega að komast nógu tímanlega inn til að setjast í miðja stúkuna og sat stjarfur og fylgdist með höllinni fyllast út fyrir öll mörk skynsemi og reglugerða af fólki sem var sturlað.

Þegar meðlimir Die Antwoord stigu síðan loks á svið, sturluðumst við meira. Við sturluðumst öll meira, kæri lesandi. Tónlist sveitarinnar er gríðarlega adrenalínrík og hávær og meðlimir hlupu óðir um sviðið og fleygðu sér út í áheyrendaskarann, sem var hættur að líkjast fólki og hafði runnið saman í eina iðandi lífveru, hendur fólksins eins og mörg þúsund fálmarar skordýrs sem hafði hlotið raflost. Ég hef aldrei orðið vitni að slíkri orkulosun, hvorki fyrr né síðar. 

Í stúkunni ríkti svipað ástand, þykkur kannabisreykur lá yfir, á hægri hönd var ung stúlka búin að rífa sig úr öllum fötunum og dansaði nakin í leiðslu. Ég leit í kringum mig og sá skyndilega fleiri kvenmansbrjóst en ég hafði séð á ævi minni samanlagt. Senan líktist nú einna helst endinum á Ilminum: sögu af morðingja, eftir Patrick Süskind. Röð óhappa hafði orðið til þess að skapa díónýsískar óeirðir í höllinni, eins konar tónlistarorgíu. Ég var eina manneskjan sem dansaði ekki, heldur sat stjarfur og trúði ekki eigin augum. Skyndilega var ókunnug stúlka fyrir aftan mig farin að kýla mig í bakið og þegar ég leit við öskraði hún á mig, og ég afsaka orðbragðið: „Hvað er fokking að þér, fokking dansaðu, fokking tussan þín, fokking dansaðu!“ og hún var í senn full kærleiks þrátt fyrir orðbragðið en líka reið því hún vissi að við værum hér til að sleppa takinu í smá stund og það var ég sem var óviðeigandi, svona fullklæddur og hreyfingarlaus.

Hljómsveitin lýsti því á sviðinu hvernig þau höfðu keyrt langt yfir leyfilegum hámarkshraða með hjálp lögreglunnar til að ná tónleikunum. Já, meira að segja löggan tók þátt í ævintýrinu. Það var eins og alheimurinn sjálfur hefði sett hefðbundna skynsemi heimsins á pásu og lagt á ráðin um að skapa tímabundið stjórnleysi. Og aðalsprautur Die Antwoord, þau Yolandi og Ninja, virtust búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum í að beisla orkuna á svæðinu. Á engum tímapunkti reyndu þau að róa skarann, þvert á móti beisluðu þau orkuna og hjálpuðu okkur að losa hana, eins og músíkalskir seiðkarlar eða brimbrettakappi sem skilur að þú getur ekki barist gegn öldunum, aðeins reynt að svífa um á þeim. Og á einhvern undarlegan hátt er eins og fólkið í höllinni hafi kunnað að sturlast og tónlistin hafi hjálpað því að sleppa takinu á hátt sem ekkert annað fyrirbæri getur.

Ég er ekki að segja frá þessu til að verja óöruggt tónleikahald eða hljómsveitina Die Antwoord. Síðan fólk lét lífið á tónleikum Pearl Jam á Hróarskeldu árið 2000 hefur tónleikahöldurum verið full ljóst að það þarf að halda örugga viðburði. En stundum líður manni líka eins og ekkert sé hættulegt lengur og það gerir okkur að hálfgerðum börnum, úr tengslum við líkama okkar og okkar innri Díónýsos.

Ég hef aldrei gengið út úr höllinni eftir tónleika í jafn þöglum áheyrendaskara. Enginn sagði orð. Við höfðum verið tæmd og það var ekkert hægt að segja. Ég leit fyrir aftan mig og sá stúlkuna sem hafði dansað nakin hægra megin við mig. Hún var komin aftur í fötin og horfði fram fyrir sig með augnaráði manneskju sem hafði ekki ætlað sér að dansa nakin í Laugardalshöllinni þetta kvöld. Og satt best að segja hef ég aldrei heyrt neinn tala um þessa tónleika síðan þeir voru, mögulega því við erum ekki alveg viss um að þetta hafi raunverulega gerst.

Tengdar fréttir

Tónlist

Vel veðruð stemmning í Laugardalnum