Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Zelensky kallar eftir stuðningi við NATÓ-aðild Úkraínu

epa10185938 Ukrainian President Volodymyr Zelensky speaks during his meeting with European Commission President Ursula von der Leyen (not pictured) during their meeting in Kyiv, Ukraine, 15 September 2022. Ursula von der Leyen arrived in Kyiv to meet with top Ukrainian officials amid the Russian invasion.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
 Mynd: EPA
Úkraínuforseti kallar eftir stuðningi leiðtoga Evrópuríkja við umsókn um aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu. Hann lýsir Rússlandi sem því ríki veraldar sem andsnúnast sé Evrópu.

Volodymyr Zelensky ávarpaði leiðtoga 44 Evrópuríkja um fjarfundabúnað á fyrsta fundi þeirra sem hófst í Prag í gær. The Guardian fjallar um málið og hefur eftir háttsettum embættismanni Evrópusambandsins að leiðtogarnir hafi hlýtt á mál Zelenskys af einbeitingu og þunga sem endranær. 

Fulltrúum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi ekki boðið

Hvorki Rússland né Hvíta-Rússland eiga fulltrúa á fundinum sem Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, sagði til marks um hve einangruð þau ríki séu í álfunni.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var fjarverandi þar sem hún þurfti að vera viðstödd setningu danska þingsins í aðdraganda kosninga sem verða þar í landi 1. nóvember.

Zelensky greindi í síðustu viku frá fyrirhugaðri umsókn Úkraínu um aðild að NATÓ, örskömmu eftir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, tilkynnti um innlimun fjögurra úkraínskra héraða.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði að fundi loknum mikinn þunga liggja í stuðningi Evrópuríkja við varnir Úkraínu og fordæmingu þeirra á yfirgangi Rússa.

Úkraína verst til að hindra yfirgang Rússa í Evrópu

Zelensky áréttaði enn mikilvægi sigurs Úkraínumanna yfir innrásarliðinu. „Það er til að koma í veg fyrir að rússneskir skriðdrekar ryðjist inn í Varsjá eða Prag. Til að Rússar beini ekki stórskotaliði að Eystrasaltsríkjunum eða skjóti eldflaugum að Finnlandi, eða hvaða öðru ríki Evrópu sem er.“

Leiðtogar Evrópusambandsríkja á fundinum kváðust vilja leggja að ríkjum utan sambandsins að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum. Hvorki Tyrkir, sem sóst hafa eftir milligöngu um friðarviðræður, né Serbar, sem sótt hafa um aðild að bandalaginu, hafa viljað beita Rússa þvingunum. 

Ætlun leiðtoganna er að funda á hálfs árs fresti, ýmist í Evrópusambandsríki eða ríki utan þess. Gestgjafinn, Petr Fiala forsætisráðherra Tékklands, greindi frá því að næsti fundur yrði í Moldóvu, þá á Spáni og því næst á Bretlandi.

epa10226613 Family photo during the Meeting of the European Political Community in Prague, Czech Republic, 06 October 2022. The first meeting of the European Political Community brings together leaders from across the continent including non EU members countries with the aims to foster political dialogue and cooperation and to strengthen the continent's security, stability and prosperity, a statement by the European Council reads.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA