Markmiðið er friðsælli, öruggari og vinalegri heimur

Mynd: Rauði krossinn / RÚV

Markmiðið er friðsælli, öruggari og vinalegri heimur

07.10.2022 - 20:39

Höfundar

Fjallað er um störf Rauða krossins í þættinum Verum vinir - mannvinasöfnun Rauða kross Íslands. Þátturinn er á dagskrá á RÚV í kvöld í beinni útsendingu.

Friður hefur alla tíð verið meginmarkmið Rauða krossins. Hann var stofnaður til að fá ríki heims til að samþykkja og framfylgja alþjóðlegum mannúðarlögum fyrir vopnuð átök. Lögin tóku fyrst gildi í ágúst 1864 og hófu sveitir sjálfboðaliða Rauða krossins að standa vörð um særða hermenn og almenna borgara á vígvellinum. Áherslan er alltaf á að styðja þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924. Fljótlega rataði fyrsti sjúkrabíll Rauða krossins á götur borgarinnar, hreinlætisfræðsla var sett á stofn til að draga úr sjúkdómum og sjúkraskýli fyrir erlenda sjómenn voru sett upp víða um land.

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði Krossinn - RÚV

Fyrsti sendifulltrúi Rauða krossins var sendur utan árið 1945 og á hverju ári fara tíu Rauða kross fulltrúar frá Íslandi á átakasvæði á vettvang náttúruhamfara. Innanlands sinnir Rauði krossinn meðal annars almannavörnum, til að mynda þegar eldgos hófst í Vestmannaeyjum árið 1973. Þá opnaði Rauði krossinn fjöldahjálparstöðvar fyrir brottflutta Vestmannaeyinga. Rúmum tveimur áratugum síðar féllu svo snjóflóð á Súðavík og Flateyri og þá studdu sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins íbúa og tóku þátt í uppbyggingarstarfi.

Árið 1956 hófst stuðningur Rauða krossins við fyrsta flóttafólkið á Íslandi sem kom frá Ungverjalandi.

Um miðjan níunda áratuginn var Rauða kross húsið stofnað. Innan þess voru trúnaðarsíminn og vinalínan starfrækt sem síðar urðu að hjálparsíma og netspjalli rauða krossins 1717 sem starfar enn og tekur við um 15.000 símtölum og netsamtölum á hverju ári.

Með tilkomu skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins hafa svo aðstæður fólks sem notar vímuefni í æð batnað og viðhorf til hópsins breyst. Öll þessi fjölbreyttu verkefni hlúa að þeim sem sem minnst mega sín. Markmiðið er að skynja og bregðast við neyð og með sameiginlegu átaki vinna að upprunalegu markmiði um friðsælli, öruggari og vinalegri heim.

Fjallað er um starf Rauða krossins í þættinum Verum vinir - mannvinasöfnun Rauða kross Íslands. Rauði krossinn hvetur landsmenn til að styrkja félagið og gerast Mannvinir. Mannvinir leggja ýmsum brýnum málefnum lið, meðal annars móttöku flóttafólks, neyðarhjálp fyrir þolendur náttúruhamfara og annarra áfalla, skaðaminnkun og þróunarsamvinnu.

Meðan á útsendingu stendur er hægt að taka þátt í söfnuninni með því að hringja í 595 1717.