Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þekktur handritshöfundur ákærður fyrir kynferðisbrot

epa04571962 A view of the Screen Actor's Guild (SAG) Awards Actor statue in front of clearing fog at the Hollywood sign early morning in Los Angeles, USA, 20 January 2015. The SAG Actor statue is ten feet tall and weighs 200 pounds. The Screen Actor&
 Mynd: EPA
Bandarískur handritshöfundur og framleiðandi sjónvarpsþátta var í gær ákærður fyrir margvísleg kynferðisbrot. Ákæran er í átján liðum og snýr að brotum gegn fimm konum á árunum 2014-2019.

Eric Weinberg, sem framleiddi þættina Scrubs og Californication, er sagður hafa beitt áhrifum sínum í Hollywood til að ginna ungar konur í myndatökur þar sem meint brot áttu sér stað.

George Gascón, héraðssaksóknari í Los Angeles, segir að völd og áhrif geti spillt fólki þannig að það skaði aðra sem oft skilji eftir djúp ör á sálarlífi þolenda. Weinberg var handtekinn í júlí og síðan þá hafa tugir kvenna stigið fram og tilkynnt lögreglu um brot af hans hálfu. 

Gascon segir hvert mál verða rannsakað í hörgul en Weinberg sem er laus gegn tryggingu kemur fyrir dómara 25. október. Lögfræðingur Weinbergs segir ásakanirnar tengjast skilnaði hans og því sé hann reiðubúinn að mæta í dómssal og gera grein fyrir máli sínu.

Rétt fimm ár voru í gær frá því að bandaríska dagblaðið The New York Times fletti ofan af kynferðisbrotum Harvey Weinstein, sem löngum þótti nánast ósnertanlegur risi í kvikmyndaheiminum.

Það varð kveikjan að fyrstu bylgju #metoo-byltingarinnar þar sem milljónir kvenna um víða veröld vöktu athygli á langvarandi kynferðisofbeldi og kynjamisrétti.