Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óboðlegt að bjóða fólki að búa á bedda til lengri tíma

Gylfi Þór Þorsteinsson og nýja fjöldahjálparstöðin.
 Mynd: Fréttir
Tekið verður á móti fyrsta hópi flóttafólks í nýrri fjöldahjálparstöð Rauða krossins í dag. Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri vegna komu flóttafólks til landsins, segir að sveitarfélögin verði að aðstoða við verkefnið. Vinna þurfi að lausn þessar mál mjög hratt því óboðlegt sé að bjóða fólki að bedda til lengri tíma.

Gengur hægt að koma fólki úr úrræðum Rauða krossins

Rauði Krossinn kom upp nýrri fjöldahjálparstöð í fyrrum húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni í gær. Þar verður tekið á móti flóttafólki tímabundið þar til það kemst í húsnæði á vegum stjórnvalda eða sveitarfélaga. Von er á fyrsta hópnum í dag. 

„Það kom töluverður fjöldi til landsins í gær og í nótt. Mér sýnist hafa verið að koma kannski hátt í 30 manns þannig að líklega verða einhverjir gestir þarna hjá okkur í dag. Þarna í þessum hóp sem var að koma í nótt var sýnist mér einhvers staðar á bilinu sjö til tíu frá Úkraínu. Aðrir héðan og þaðan.“

Gylfi segist ekki vita hvað hópurinn dvelji lengi í fjöldahjálparstöðinni en miðað er við að enginn verði þar lengur en tvo til þrjá daga. 

„En við getum þó ekki lofað því. Það fer alltaf eftir því hvernig við náum að losa út úr öðrum skammtímarýmum hjá okkur. Fólk ætti að fara þaðan yfir til sveitarfélaganna eða að vera á eigin vegum. En það hefur verið tregða að fólk komist frá okkur þannig að við getum ekki lofað neinu.“ 

Vonast til að ýta við öllum sem koma að málum

Tilraunir stjórnvalda til að finna flóttafólki húsnæði hafi ekki dugað til. Ekkert hefur fjölgað í hópi þeirra sveitarfélaga sem bjóða húsnæði og fleiri hafa sótt um hæli hér í haust en búist var við. Fimm sveitarfélög taka nú á móti flóttafólki. Gylfi segir að ástandið sé þess eðlis núna að allir sem komi að málum verði að leggja hönd á plóg.  Vinna þurfi hratt og örugglega. 

„Það hafa fleiri sýnt þessu áhuga og jafnvel vilja en það er kannski ekki að gerast nógu hratt. Það er náttúrulega ákveðin skylda á sveitarfélögum landsins að taka við fólki sem þar skráir sig til búsetu og það þarf að vinna að lausn þessara mála mjög hratt því við getum ekki látið fólk búa á beddum til lengri tíma. “

- Vonist þið til þess að þetta ýti við fleiri sveitarfélögum?

„Já,  þetta hlýtur að ýta við öllum. Eins og ég segi, þetta er ekki ástand sem við viljum búa við fyrir nokkurn mann þannig að þetta hlýtur að ýta við öllum sem að málinu koma. “

Ekki beint flóttamannabúðir

Rauði krossinn opnaði miðstöðina að beiðni íslenskra stjórnvalda. Um miðjan síðasta mánuð sagði Gylfi Þór að allt yrði reynt til að koma í veg fyrir að fara þyrfti þessa leið. Húsnæðið er atvinnuhúsnæði, fólkið sefur á bedda og pláss er fyrir 150 manns.  Spurður segist Gylfi Þór gera greinarmun á fjöldahjálparstöðinni og flóttamannabúðum.

„Ég vil eki kalla þetta flóttamannabúðir þar sem að flóttamannabúðir eru staður þar sem fólk býr að staðaldri. Þarna erum við að tala um fjödahjálparstöð þar sem fólk er að koma inn í mjög stuttan tíma á meðan við reynum að greiða úr málum þess. Hvort einhvern tímann verði flóttamannabúðir á Íslandi, ég vona svo sannarlega ekki, en maður veit aldrei.“

„Þurfum að fá sveitarfélögin að borðinu“

Gylfi segir að mikið sé til af skammtímalausnum, húsnæði sem rúmi 20-40 manns, en stærri rými vanti. 

„Þess vegna erum við að vonast eftir því líka að fólk sem að á slík rými, veit um slík rými, geti annað hvort bent okkur á það eða bjóði þau fram í þetta. Við þurfum náttúrulega líka að fá sveitarfélögin að borðinu. Það er ekkert launungarmál. Sveitarfélögin þurfa að aðstoða við þetta verkefni.

Nú sé undir þeim sem að málaflokknum komi að standa við stóru orðin, bjóða fram þá vinnu sem í boði er og það húsnæði sem sé til. 

„Og það skal ekki gleymast að fólkið er ekki hingað komið til þess að setjast upp á ríkið eða sveitarfélög. Þau vilja vinna, þau vilja borga sína skatta og skyldur og þau borga sína leigu.“