Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Kristján Ólafsson og Ragnar Reykás eru bræður mínir“

Mynd: RÚV / Samsett

„Kristján Ólafsson og Ragnar Reykás eru bræður mínir“

05.10.2022 - 10:35

Höfundar

„Það hefur verið yndislegt að fylgja þessum manni, þetta er þvílíkt góðmenni,“ segir Björn Emilsson framleiðandi og handritshöfundur um Sigurð Sigurjónsson vin sinn. Björn hefur síðustu mánuði unnið að glænýjum heimildarþáttum um leikarann sem rata á skjáinn um helgina.

Á laugardag hefja göngu sína á RÚV heimildarþættir um Sigurð Sigurjónsson, einn ástsælasta gamanleikara Íslendinga sem einnig getur brugðið sér í dramatísk hlutverk með glæsibrag. Rúm hálf öld er síðan leikarinn steig sín fyrstu skref á fjölum leikhúsanna, fljótlega upp úr því birtist hann líka á hvíta tjaldinu og auðvitað eftirminnilega á sjónvarpsskjánum með Spaugstofubræðrum sínum. Guðmundur Pálsson er umsjónarmaður þáttanna og Björn Emilsson framleiðandi og handritshöfundur. Þeir Siggi Sigurjóns, Björn og Guðmundur kíktu allir í Morgunútvarpið á Rás 2.

Gekk illa að fá einhvern til að tala illa um Sigga

Björn hefur fylgt Sigga í gegnum allan hans feril á sjónvarpsskjánum, sem hefur verið rúmlega ánægjuleg reynsla, að hans sögn. „Það hefur verið yndislegt að fylgja þessum manni, þetta er þvílíkt góðmenni,“ segir Björn sem bætir því sposkur við að það séu allir á sama máli um elsku mannsins og það hafi stundum gert klippivinnuna flókna. Það lýstu honum allir viðmælendur á sama hátt. „Þið sjáið hvernig er að klippa þátt þar sem allir segja: Hann er svo mikill ljúflingur og góður. En ég hef verið að leita að setningum þar sem menn eru að tala eitthvað illa um hann, innan gæsalappa, en það hefur gengið illa.“

Segja að hann sé illmenni inn við beinið

Sigurður er þó ekki sammála því að allir séu á einu máli um óþverrandi gæsku hans; „Þeir segja nú félagar mínir í Spaugstofunni að ég sé illmenni inn við beinið svo það er nú aldrei að vita hvað leynist þarna.“ Björn tekur undir það og segir: „Það er reyndar alveg rétt, það er einn þeirra sem er ekki ánægður með Sigga því hann er svo lyginn. Það kemur fram í þáttunum.“ Siggi skýtur þá inn að það sé hans lifibrauð að ljúga. „Ég er búinn að vinna við að ljúga í 53 ár þannig að maður hefur kannski smá þjálfun.“

Fremstur í flokki og fyndnastur

Guðmundur Pálsson er yngri en félagarnir Björn og Sigurður og segist alinn upp með Sigga Sigurjóns á sviði og á skjánum fyrir framan sig. Honum þótti sjálfum minnisstætt og afar kærkomið þegar Spaugstofan rataði fyrst í sjónvarpið. „Þegar ég var barn og unglingur þá þráði ég ekkert heitar en að heyra grín og horfa á grín en það var ekkert grín í boði. Það var Áramótaskaupið einu sinni á ári, svo var Laddi annað slagið í sjónvarpinu en það var ekkert fast sem maður gat gengið að og horft á aftur og aftur og fengið nægju sína af.“ En hann var bænheyrður. „Svo kemur Spaugstofan bara af krafti þegar ég var svona 12 ára. Þá er Siggi náttúrulega fremstur í flokki og fyndnastur.“

Mynd: RÚV / RÚV

„Eigum við ekki bara að taka upp þráðinn?“

Björn segir að eftir að Spaugstofumenn kvöddu hafi myndast ákveðinn skortur á grínefni sem er í senn samfélagsspegill, „eins og þeir voru að gera og var algjörlega frábært.“ Sigurður kveðst hjartanlega sammála því. „Eigum við ekki bara að taka upp þráðinn, bæta tíu árum við og gera eitthvað af viti?“ spyr hann glettinn.

Algjört brjálæði en gaman í minningunni

Spaugstofunni lýsir Sigurjón enda sem mikilvægum kafla í lífi sínu sem hann sé mjög stoltur af. Hann hafi þó þurft að halda mörgum boltum á lofti þegar hún var á skjánum því hann var líka að leika í bíómyndum og í leikhúsi. „Auðvitað var þetta algjört brjálæði en í minningunni var þetta ekkert mál, bara gaman.“

Guðmundur segir að ekki allir geri sér grein fyrir því hversu önnum kafnir Spaugstofumenn voru þegar þættirnir voru sýndir nýlega, alltaf með fersku efni í takt við tíðarandann. „Þá var líka verið að sýna í Þjóðleikhúsinu, stundum tvisvar á dag. Það er verið að troða upp um allar trissur og alls konar grín og glens. Svo var kannski verið að leika í bíómynd og að æfa eitthvað,“ segir Guðmundur. „Svo eiga menn fjölskyldu líka og svo framvegis.“

En vinnan þótti þeim gefandi og Sigurður segir að það hafi verið bensínið sem dreif þá áfram, hve gaman þeim þótti að gera þættina. „Það var þessi keyrsla, það virkaði þannig á þessum tíma,“ rifjar hann upp. „Við vorum aðeins yngri og hraustari en þetta dreif okkur áfram.“

Fullt af hressu og kláru fólki til að taka við kyndlinum

Sjálfur myndi Björn ekki hika við að taka upp þráðinn á nýju þó hann viðurkenni að þáttur á viku sé nokkuð vel í lagt. „Við erum auðvitað aðeins eldri, ég er orðinn 74 ára og er alveg að fara að hætta þó ég sé engan veginn tilbúinn til þess. En ég myndi alveg leggja mig fram, en kannski gera þetta á tveimur vikum í staðinn fyrir hverja viku.“

Það vantar svo ekki yngra fyndið fólk sem gæti líka tekið við þessu hlutverki, að sögn Sigga. „Það er komið fullt af nýju hressu og kláru fólki sem á að taka kyndilinn og halda þessu áfram.“

„Vona að þetta sé nú ekki dánarvottorð“

Sjálfur sé hann reyndar síður en svo dauður úr öllum æðum. „Ég vona nú að þó að það sé verið að gera þessa þætti um undirritaðan að þetta sé nú ekki dánarvottorð. Ég tel mig vera í fullu fjöri enn þá og ég á einhverja klukkutíma eftir.“ 

Björn segist hafa lært afar mikið við gerð þáttanna, um viðfangsefnið. „Ég í raun veit meira um Sigga núna en nokkur annar.“ Viðmælendurnir voru um 50 talsins og flest höfðu frá ýmsu að segja. „Ýmis leyndamál sem hann veit ekki.“

Vildi hafa dramað, grínið, veiðina, börnin, barnabörnin og lífið

Sigurður er ekki bara gamanleikari því hann hefur sannarlega tekið að sér alvarleg hlutverk og eftirminnileg, meðal annars í kvikmyndinni Hrútar og í spennuþáttunum Borgríki. „Ég hef viljað hafa þennan kokteil eins og hann blandaðist einhvern veginn, og veiðina, börnin, barnabörnin og lífið,“ segir hann.

Af þeim hlutverkum sem hann brá sér í Spaugstofunni standa tvö upp úr, þó hann segir afar erfitt að gera upp á milli. „Kristján Ólafsson og Ragnar Reykás, þetta eru bræður mínir,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Sigurð, Björn og Guðmund í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Siggi Sigurjóns er á dagskrá á laugardag kl. 19.45 á RÚV.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Verðum vinir alveg til æviloka“