Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kortleggja eignatengsl í íslenskum sjávarútvegi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samkeppniseftirlitið hefur fengið það verkefni að kortleggja stjórnunar- og eignatengsl í íslenskum sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra segir mikilvægt að gagnsæi ríki um þessi tengsl til að hægt sé að auka traust á milli sjávarútvegs og samfélags.

Kortlagningin byggir á samkomulagi sem Matvælaráðuneytið hefur gert við Samkeppniseftirlitið. Markmiðið er ekki einungis að varpa ljósi á þessi eignatengsl heldur líka að meta áhrifavald eigenda í stjórnum fyrirtækja sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum.

„Þetta er hluti af því að tryggja meiri gagnsæi í greininni og það er auðvitað partur af því að freista þess ná meiri sátt um þessa lykilatvinnugrein í landinu í samfélaginu og veitir ekki af. Þannig að við erum að gera samning við Samkeppniseftirlitið um þetta. Sem að síðan hefur samstarf við Skattinn, Fiskistofu og fleiri eftirlitsaðila um að ná utan um þetta með skýrum hætti. Ég geri ráð fyrir því að fá svo skýrslu eða úttekt um þetta,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvæla- og sjávarútvegsráðherra.

Gert ráð fyrir að skýrslan verði tilbúin í lok næsta árs og verður niðurstaðan notuð í frekari stefnumótunarvinnu um sjávarútveginn. 

„Ég held að það sé mjög mikilvægt í heilbrigðu og gagnsæju lýðræðissamfélagi að vitum nákvæmlega hvernig eignir og áhrif í samfélaginu liggja. Eignir eru mjög ráðandi í því að hafa áhrif á það hvernig samfélög þróast og ítök skipta þar miklu máli. Þess vegna er það hluti af svona lýðræðislegu skrefi í áttina að samfélagssátt að fólk sjái betur hvað þarna er á bak við og ég held að það hljóti að vera hagsmunamál fyrir sjávarútveginn líka að vera með í því að vera í dagsbirtunni með allt sem fram fer,“ segir Svandís. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV