Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ákærður fyrir manndrápstilraun eftir umsátur á Miðvangi

05.10.2022 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann á sjötugsaldri fyrir tilraun til manndráps vegna skotárásar á Miðvangi í lok júní. Ákæran hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness en þinghaldið var lokað. Saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggisvistun. Brotaþolarnir í málinu eru tveir og þeir krefjast þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim samtals átta milljónir.

Maðurinn er í ákærunni sagður hafa verið með 22 kalíbera riffil upp á svölum íbúðar sinnar á þriðju hæð. Honum er gefið að sök að hafa miðað á bíl sem lagt var um 33 metrum frá eða við leikskólann Víðivelli og hleypt af tveimur skotum. 

Samkvæmt ákæru fór fyrra skotið í gegnum afturhlera bílsins og stöðvaðist í baki farþegasætisins þar sem annar brotaþolanna er sagður hafa staðið. Seinna skotið fór ofarlega í vinstri afturhurð bílsins og stöðvaðist í hurðafalsinu. Rúðan í hurðinni brotnaði og glerbrotum rigndi yfir hinn brotaþolann sem sat í skotstefnu kúlunnar í ökumannssætinu.

Brotaþolarnir tveir krefjast þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim fjórar milljónir hvorum um sig í miskabætur eða samtals átta milljónir króna. Fram kom í fréttum að maður og ungur sonur hans hefðu verið inni í öðrum bílnum sem skotið var á. Ekki hefur fengist staðfest að þeir séu  brotaþolarnir tveir í málinu.

Umsátrið á Miðvangi vegna skotárásarinnar stóð í drjúgan tíma. Á þriðja tug lögreglumanna kom að aðgerðunum auk sérsveitar ríkislögreglustjóra.  Maðurinn gaf sig fram eftir að samningamaður lögreglu ræddi við hann í síma. Hann var í framhaldinu vistaður á viðeigandi stofnun. Þegar slíkt er gert er það með vísan til andlegra eða sálrænna hátta.