Vill að Hólar stimpli sig rækilega inn sem áfangastaður

Mynd: Aðsend / Rúv

Vill að Hólar stimpli sig rækilega inn sem áfangastaður

04.10.2022 - 11:23

Höfundar

Hólmfríður Sveinsdóttir tók við sem rektor Háskólans á Hólum í sumar. Hún leggur áherslu á aukna samvinnu við atvinnulífið, eflingu endurmenntunar og að staðurinn stimpli sig rækilega inn sem áfangastaður ferðamanna. Ýmis önnur verkefni bíða hennar enda segir hún engan dag eins hjá rektornum á Hólum.

Hólmfríður er fædd og uppalin á Sauðárkróki og því algjör Króksari, eins og hún kemst sjálf að orði. Í dag býr hún ásamt fjölskyldu sinni á bænum Glæsibæ í Skagafirði. Þar rekur Stefán Friðriksson maður hennar dýraspítala og þau fjölskyldan eru með hrossarækt og ríða mikið út. Hólmfríður segir að það hafi alltaf verið upplifun að koma til Hóla í æsku og þannig sé það enn þá. 

„Alltaf þegar ég keyri inn dalinn á leið í vinnuna þá einhvern veginn opnast faðmurinn, eins og fjöllin, og taka á móti manni,“ segir Hólmfríður í Sögum af landi á Rás 1. 

Alls konar verkefni á borði rektors

Verkefnin á borði rektors eru fjölbreytt og enginn dagur eins. „Rektorinn, hann er í rauninni bóndinn á Hólum. Hann þarf að sjá til þess að borið sé á tún og að það sé heyjað. Og að hrossin séu rekin á afrétt og að það sé náð í hrossin. Og við þurfum að viðhalda girðingum og maður þarf að hugsa fyrir mörgu,“ segir hún. „Það er í mörg horn að líta, en á sama tíma rosalega skemmtilegt. Það er enginn dagur eins hjá rektornum á Hólum.“

Hesturinn sem meðferðarúrræði

Þrjár deildir eru við Háskólann á Hólum: Ferðamáladeild, fiskeldis- og fiskilíffræðideild og hestadeild. Hólmfríður vill sjá skólann eflast og fræðasviðin breikka undir hennar stjórn. Eins vill hún að nemendur skólans geti leitað aftur til skólans og vill efla endurmenntun. Í hestafræðideildinni sér hún til dæmis fyrir sér að efla rannsóknir á notkun hestsins sem meðferðarúrræði, eins og við áfallastreituröskun. „Að fá fólk til að brjótast aftur úr skelinni, fara að treysta,“ segir hún. „Þar gætum við í rauninni byggt ofan á nám sem fólk er að stunda á heilbrigðisvísindasviði, eins og sálfræði og iðjuþjálfun.“

Hagaðilarnir þurfi að vinna að sömu sýn

Hólar í Hjaltadal er sögufrægur staður og Hólmfríði langar að staðurinn stimpli sig rækilega inn sem áfangastaður ferðamanna. „Hér er gríðarlega mikil menning og svo auðvitað náttúran, við getum byggt á þessu. Við þurfum bara að taka höndum saman, hagaðilarnir.“ Þar á hún við sveitarfélagið Skagafjörð, Þjóðkirkjuna, Sögusetur íslenska hestsins, Háskólann á Hólum og Þjóðminjasafnið. „Það eru hagaðilarnir sem þurfa að taka höndum saman og móta stefnu og fara síðan að vinna að þeirri sýn,“ segir hún. 

Rætt var við Hólmfríði Sveinsdóttur, rektor Háskólans á Hólum, í Sögum af landi á Rás 1. Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni á spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Nýtt húsnæði tryggir áframhaldandi þróun fiskeldisnáms

Umhverfismál

Landbúnaðarháskólanum og Háskólanum á Hólum vegnar vel

Menntamál

Skógurinn nýtist við kennslu á öllum skólastigum

Norðurland

Hólmfríður skipuð rektor Háskólans á Hólum