Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þau sem eru í haldi áður komist í kast við lögin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvær konur og einn karlmaður sem sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að manndrápi í Ólafsfirði verða flutt til Reykjavíkur í dag. Rannsóknin er skammt á veg komin en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla áður haft afskipti af fólkinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru minnst fjórir staddir í íbúð við Ólafsveg í Ólafsfirði, hinn látni, kærasta hans og annað par, aðfaranótt mánudags. Karlmaður var stunginn þar til bana og önnur konan hlaut einnig áverka þessa nótt og var flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Hún var ásamt hinni konunni og karlmanninum í gærkvöld úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að málinu, en þar sem ekki eru fangageymslur á Akureyri verða þau flutt til Reykjavíkur í dag.

Höfðu átt í deilum fyrir atvikið

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla áður haft afskipti af fólkinu sem er í gæsluvarðhaldi. Bæjarbúar sem gáfu sig á tal við fréttastofu í gær greindu frá því að einhver þeirra hefðu lengi sýnt af sér ógnandi hegðun og hefðu átt í deilum áður sín á milli.

Íbúar Ólafsfjarðar eru slegnir vegna málsins að sögn bæjarstjóra og fjölmenntu á kyrrðarstund í Ólafsfjarðarkirkju í gærkvöld. Viðbragðsteymi frá Rauða Krossi Íslands sendi þrjá fulltrúa norður í gær, sem einnig hafa veitt sálrænan stuðning og áfallahjálp. Ólafsfjarðarkirkja verður einnig opin næstu daga, þar sem fólk getur leitað eftir stuðningi.

„Mannlegur harmleikur sem snertir allt bæjarfélagið“

Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Sigríður Ingvarsdóttir, birti í morgun færslu á heimasíðu bæjarins þar sem segir að málið snerti allt bæjarfélagið og íbúa þess. Þetta sé mannlegur harmleikur og margir eigi um sárt að binda. Sveitarstjórn Skagafjarðar sendi íbúum Fjallabyggðar samúðarkveðjur í morgun.