Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Söfnuðu fyrir skriðdreka og gáfu Úkraínumönnum

Tékikneskur almenningur safnaði fyrir uppfærðum og betrumbættum rússneskum T72-skriðdreka og gaf Úkraínumönnum, skömmu fyrir 70 ára afmæli Pútíns Rússlandsforseta. Þessi skriðdreki er sömu tegundar, en notaður af ungverska hernum.
Ungverskir hermenn æfa sig á rússneskum T72-skriðdreka, svipuðum þeim sem ríflega 11.000 Tékkar keyptu og gáfu Úkraínumönnum Mynd: epa
Þúsundir lögðu sitt af mörkum í tékkneskri hópsöfnun fyrir betrumbættum, rússneskum skriðdreka, sem Úkraínumönnum verður færður að gjöf á næstu dögum. 11.288 aðilar gáfu samtals jafnvirði um 190 milljóna króna í söfnuninni fyrir drekanum, sem meðal annars hefur verið kallaður „gjöf handa Pútín.“

Skriðdrekinn Tómas

Skipuleggjendur söfnunarinnar, sem segja hana þá fyrstu sinnar tegundar í sögunni, festu kaup á uppfærðum T-72 skriðdreka frá sovéttímanum. Sá hefur fengið nafnið Tómas og verður sendur til Úkraínu á næstu dögum.

Tékkneska varnarmálaráðuneytið og úkraínska sendiráðið í Prag lögðu blessun sína yfir söfnunina, segir í frétt BBC, og hvöttu fólk til að leggja í púkkið. Það var Jana Tjernokóva, varnarmálaráðherra Tékklands, sem gantaðist með það að gefendur hafi með þessu keypt „almennilega gjöf“ handa Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem verður sjötugur á föstudag.

„Tékkland er fyrsta landið, þar sem venjulegt fólk hefur keypt skriðdreka handa [úkraínska varnarmálaráðuneytinu]," skrifar Jevhen Perebínis, sendiherra Úkraínu í Prag á Twitter.

Ætla að safna áfram

Skriðdrekinn er af tegund sem byrjað var að framleiða árið 1969. Ekki kemur fram hversu gamall hann er, en tekið fram að hann hafi verið betrumbættur og uppfærður með nútímatækni, meðal annars með nýrri fallbyssu.

Skipuleggjendur söfnunarinnar heita því að halda áfram að safna peningaframlögum frá almenningi, sem notuð verði til að kaupa og senda hergögn til Úkraínu.