Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Orrustuþotur í stað strætó og bann við dönskukennslu

04.10.2022 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þær skipta orðið hundruðum hugmyndirnar sem Reykvíkingar hafa sent í hugmyndasöfnun borgaryfirvalda, Hverfið mitt. Um 850 milljónum króna verður varið í að koma vinsælustu hugmyndunum í framkvæmd á næstu tveimur árum.

Og hugmyndirnar eru jafnskrautlegar og þær eru margar. Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri Hverfisins míns, sagði við fréttastofu í síðustu viku að verkefnið yrði kynnt börnum á grunnskólaaldri og þeim gefið tækifæri til þess að koma sínum hugmyndum á framfæri. Það hefur nú verið gert í einhverjum hverfum og margar hugmyndirnar bera þess sterklega merki.

Í Grafarholti er til dæmis lagt til að fleiri sjoppum verði komið í hverfið og þá á þeim grundvelli að í hverfinu sé aðeins til staðar bakarí, sem er líka bar og ísbúð, „sem er ógeðslegt“ að mati hugmyndasmiðar. Hin aldna sjoppa hefur vikið fyrir stærri verslunum á undanförnum árum en sjoppuhangsið virðist greinilega ekki vera á undanhaldi. Það er enda lagt til að sjoppur og verslanamiðstöðvar rísi á fleiri stöðum. Í Grafarvogi hafa komið fram nokkrar tillögur um að þar verði byggð stærðarinnar verslunarmiðstöð, „mall“ ef orðalag hugmyndasmiða er notað.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skólabörnum í Grafarvogi finnst greinilega ekki mikið til Spangarinnar koma og vilja nýja verslunarmiðstöð.

Frí á miðvikudögum og bann við skólasundi

Skólabörn virðast svo nýta hugmyndasöfnunina til þess knýja fram breytingar á aðalnámskrá. Á Kjalarnesi er lagt til að frí verði á miðvikudögum á þeim forsendum að hugmyndasmiður hati miðvikudaga. Í Grafarvogi hafa nemendur lagt til að stytta skólatímann vegna þess að „það nennir enginn í skólann“ og til viðbótar er lagt til að bann verði sett á dönskukennslu og skólasund. Í Grafarvogi leggur nemandi til að notkun strætisvagna verði hætt og orrustuþotur notaðar til þess að sinna almenningssamgöngum í staðinn.

Íbúi í Vesturbænum sendir svo pillu á borgaryfirvöld og leggur til að Hagskælingar fái að koma aftur til náms í sínu heimahverfi. Húsnæðismál skólans hafa enda verið í ólestri vegna myglu mánuðum saman.

Styttur bæjarins settar á dagskrá

Styttur og minnismerki eru víða ofarlega á baugi. Hugmynd um að reist verði stytta af rapparanum Ye, betur þekktum sem Kanye West, fyrir utan Vesturbæjarlaug hefur verið milli tannanna á fólki síðan hún var lögð fram fyrir tveimur árum. Hugmyndin hlaut flest atkvæði allra hugmynda í hugmyndasöfnuninni fyrir tveimur árum en Reykjavíkurborg féllst ekki á að ráðist yrði til framkvæmda, mörgum til mikils ama. Nú er tillagan lögð fram öðru sinni og ekki fæst betur séð en að tillagan sé aftur vinsælust meðal borgarbúa. Nú þegar hafa 240 manns greitt atkvæði með tillögunni. 

Í Breiðholti er lagt til að reist verði stytta af tónlistarmanninum Svavari Pétri Eysteinssyni, Prins Póló, sem lést í síðustu viku. Í röksemdarfærslu með tillögunni segir að jafnvel sé tilefni til þess að heiðra þennan ástsæla Breiðhylting með lundi, torgi eða jafnvel heilli götu.

Svavar Pétur Eysteinsson stendur við opinn bílskúr með gítar í hönd og kórónu Prins Póló á höfði.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, var dáður af mörgum.

Þá er í Grafarholti lagt til að reist verði stytta af pólska knattspyrnugoðinu Robert Lewandowski fyrir utan nýbyggða Dalslaug. Í Árbæ og Norðingaholti er hins vegar lagt til að reistur verði minnisvarði um samfélagsmiðlafígúruna umdeildu Andrew Tate, þar sem hann hafði svo góð áhrif á yngri kynslóðirnar. Andrew Tate var ekki fyrir löngu síðan bannaður á öllum helstu samfélagsmiðlum fyrir fjandsamlega orðræðu í garð kvenna.

Sjá einnig: Andrew Tate úthýst af samfélagsmiðlum

Margar tillögur um úrbætur í sundlaugum

Sundmenning Reykvíkinga er ekki á neinu hnignunarskeiði og ber mikill áhugi borgarbúa um úrbætur á þeirra hverfislaug vott um það. Rennibrautin í Árbæjarlaug fær heldur betur fyrir ferðina og er lagt til að henni verði skipt út fyrir stærri og betri braut. Alls hafa sex tillögur komið fram um þetta auk einnar til viðbótar þar sem lagt er til að Árbæjarlaug verði gerð barnvænni. 

Vesturbæingar telja margir að Vesturbæjarlaug sé besta laug landsins. Alltaf má þó gott bæta og einn íbúi er þeirrar skoðunar að úrbóta sé þörf á kalda potti laugarinnar. Fleiri virðast vera á sama máli ef marka má nýlega en óformlega könnun fréttastofu Stöðvar 2 um besta kalda pottinn á höfuðborgarsvæðinu. Potturinn í Vesturbæjarlaug var þar afgerandi óvinsælastur.

Tekið skal fram að flestar hugmyndirnar í hugmyndasöfnuninni eru hefðbundnari, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hugmyndir um bætta og breytta hjólastíga eru margar. Sömuleiðis hugmyndir um aukna gróðursæld, uppbyggingu útivistarsvæða, uppsetningu snjallljósastýringar við gatnamót, salernisaðstöðu á vinsælum almenningssvæðum og þar fram eftir götunum. Hugmyndasöfnunin stendur yfir til 27. október næstkomandi.