Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fullyrða að krónprinsinn njóti friðhelgi

epa07193215 Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman poses for a photo with Tunisian President Beji Caid Essebsi (not pictured) at the Presidential castle of Carthage, Tunis, Tunisia, 27 November 2018. Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman, aka MbS, arrived in Tunisia as part of his regional tour before attending the G20 summit in Argentina.  EPA-EFE/STRINGER
Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Krónprins Sádi Arabíu nýtur friðhelgi frá lögsókn í Bandaríkjunum eftir að hann var gerður að forsætisráðherra í heimalandinu. Þetta fullyrða lögmenn krónprinsins. Hann á til að mynda yfir höfði sér málsókn í Bandaríkjunum vegna gruns um að hann eigi þátt í morðinu á blaðamanninu Jamal Khashoggi.

Krónprinsinn var skipaður forsætisráðherra samkvæmt konunglegri tilskipun í síðustu viku. Áður gegndi hann embætti varaforsætisráðherra og varnarmálaráðherra. AFP fréttastofan greinir frá því að mannréttindafrömuðir og andstæðingar sádiarabískra stjórnvalda óttist að hann sé að reyna að verja sig fyrir erlendum málsóknum með þessari aðgerð.

Morðið á Khashoggi árið 2018 leiddi til þess að samskipti Sádi Arabíu við vesturveldin stirðnuðu verulega. Khashoggi var lengi innundir hjá stjórnvöldum í Sádi Arabíu, en snerist gegn þeim og gagnrýndi þau margsinnis opinberlega, meðal annars í greinum í bandaríska dagblaðinu Washington Post. Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl, en lík hans hefur aldrei fundist.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, aflétti í fyrra leynd af leyniþjónustuskjölum þar sem fullyrt er að krónprinsinn hafi veitt leyfi fyrir aftökunni á Khashoggi. Yfirvöld í Sádi Arabíu hafa alltaf þvertekið fyrir það. Bandaríkjastjórn hefur enn ekki tekið afstöðu um hvort krónprinsinn njóti friðhelgi. Bandarískur dómstóll gaf stjórnvöldum frest til 3. október til þess að taka afstöðu í málinu, en eftir tilskipunina í síðustu viku fékk Bandaríkjastjórn frest til 17. nóvember.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV