Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íslendingar mismikið flúraðir eftir stjórnmálaskoðunum

03.10.2022 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Vinsældir húðflúra fara sífellt vaxandi á Íslandi. Hátt í þrír af hverjum tíu fullorðnum Íslendingum eru með húðflúr, þá frekar yngra fólk en eldra, og frekar konur en karlar.

Hlutfallið úr 20 í 30 prósent á fjórum árum

Að vera með húðflúr, eða tattú, hefur samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sjaldan verið eins mikið í tísku hérlendis. Árið 2018 voru um 20 prósent fullorðinna Íslendinga með tattú, en nú rétt tæp 30 prósent. Að skreyta sig með húðflúrum er vinsælast meðal unga fólksins, en tæpur helmingur fullorðinna undir þrítugu hefur fengið sér sig minnst eitt flúr.

Líklegra er að Íslendingar með lægri fjölskyldutekjur séu með tattú, eða tæp fjörutíu prósent, en aðeins um tuttugu prósent þeirra sem hafa mestar tekjur eru með húðflúr.

Kjósendur Flokks fólksins, Viðreisnar og Pírata vel tattóveraðir

Tattú-tískan virðist svo misvinsæl eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk styður. Stuðningsmenn Flokks fólksins, Viðreisnar og Pírata eru þeir flúruðustu hérlendis, eða 38 prósent, á meðan aðeins 12 prósent kjósenda Vinstri grænna eru með tattú og 17 prósent af kjósendum Framsóknarflokksins.

Niðurstöður Þjóðarpúlsins benda svo til þess að hlutfall flúraðra Íslendinga eigi eftir að vaxa á næstu árum, þar sem um fimmtungur þeirra sem ekki eru komnir með tattú, segist vel geta hugsað sér að slást í hópinn.