Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Truss segir að undirbúa hefði mátt aðgerðapakka betur

02.10.2022 - 18:24
epa10219853 British Prime Minister Liz Truss listens the tributes to Britain's late Queen Elizabeth II at the opening session of Conservative Party Conference in Birmingham, Britain, 02 October 2022.  Prime Minister Liz Truss admitted they were flaws with the announcement of her 'mini-budget' which led to market turmoils and British pound going historic low against the US dollar.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Skattalækkanir og 45 milljarða punda aðgerðapakka bresku ríkisstjórnarinnar hefði mátt undirbúa betur, viðurkenndi Liz Truss, forsætisráðherra í viðtali í morgun, áður en ársfundur breska Íhaldsflokksins hófst í Birmingham. Stjórn Truss hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir þessar áætlanir. 

Það hrikti í stoðum bresks efnahagslífs og pundið hríðféll eftir að Truss kynnti nýlega áform sín um gríðarmiklar skattalækkanir og aðrar aðgerðir. Truss mætti í morgun í sjónvarpsviðtali hjá Lauru  Kuenssberg í Breska ríkisútvarpinu til að skýra sitt mál og verja þessar aðgerðir - ríkisstjórnir víða um heim þurfa að taka erfiðar ákvarðanir, og það var rétt, sagði hún, að auka lántökur. 

Kuenssberg benti á að Truss hefði ítrekað sagt að þessar aðgerðir snerust um að auka hagvöxt - en hefðu haft neikvæð áhrif á fjármálamarkaðinn. 

„Við hefðum átt að undirbúa þetta betur,“ sagði Truss í viðtalinu - sem var tekið í morgun - rétt áður en Truss hélt á landsfund Íhaldsflokksins - þar sem hún þarf að líkindum að svara þeim mörgu þingmönnum og öðrum sem gagnrýnt hafa þessar aðgerðir.

Einn af þeim er Michael Gove, áhrifamikill þingmaður Íhaldsflokksins og fyrrverandi ráðherra, sem var í morgun líka í viðtali hjá Lauru Kuenssberg sem vildi vita hvort Gove ætlaði að greiða atkvæði með þessum aðgerðum. Gove sagði margt gott í þessu hjá Truss og viðurkenndi svo að lokum að hann væri ekki ánægður.