Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rannsaka viðbrögð Sinfóníunnar við máli Árna Heimis

Mynd: RÚV / RÚV
Skoða á ásakanir Bjarna Frímanns Bjarnasonar í garð Árna Heimis Ingólfssonar og viðbrögð Sinfóníuhljómsveitarinnar við þeim. Þetta ákvað stjórn og framkvæmdastjóri Sinfóníunnar í dag.

Fréttin hefur uppfærð

Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri og tónskáld, greindi frá því á fimmtudag að Árni Heimir, fyrrverandi listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar, hefði brotið gegn sér kynferðislega og að stjórnendur Sinfóníunnar hefðu hylmt yfir brotið í mörg ár. Meint brot Árna var framið þegar Bjarni Frímann var nemandi hans við Listaháskóla Íslands. Bjarni var þá 17 ára, Árni átján árum eldri. 

Viðbrögð yfirmanna hafa sætt gagnrýni. Hvorki framkvæmdastjóri né stjórnarmenn hafa gefið færi á viðtölum. Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, sagði í skriflegu svari á fimmtudag að brugðist væri við málum í samræmi við óskir þolanda eftir fremsta megni. Vilji hann ekki að farið sé lengra með málið takmarki það möguleika stjórnenda. 

Stjórn Sinfóníunnar ætlaði að ræða málin á stjórnarfundi næsta miðvikudag en ákveðið var í dag að málið þyldi enga bið. Í skriflegu svari Láru Sóleyjar til fréttastofu síðdegis segir að ákveðið hafi verið að fela óháðum fagaðila að skoða þetta mál í kjölinn og fer sú vinna strax af stað. 

Þar segir jafnframt að Sinfóníuhljómsveitin geti ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna. Árni Heimir sé ekki lengur starfsmaður hljómsveitarinnar og sinni engum verkefnum fyrir hana. Allri umræðu um mál af þessu tagi sé tekið mjög alvarlega. Láru þykir sárt að heyra af frásögn og upplifun Bjarna Frímanns. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV